Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Almannavarnir: „Farið frekar í sýnatöku en í vinnuna”

02.08.2021 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Yfir 800 manns hafa greinst með Covid-19 á Íslandi undanfarna viku, meirihluti utan sóttkvíar. Almannavarnir biðla til fólks að fara í sýnatöku við minnstu einkenni, í stað þess að mæta í vinnu eftir verslunarmannahelgi. Upplýsingafulltrúi almannavarna segir helsta áhyggjuefnið vera áframhaldandi hátt hlutfall sem greinist utan sóttkvíar. Búist er við mun hærri tölum eftir verslunarmannahelgina. Upplýsingafundur almannavarna verður á morgun.

Nýgengismet innanlands

Að minnsta kosti 67 greindust innanlands í gær, meira en helmingur, eða 36, utan sóttkvíar. Í fyrradag greindust 86 með veiruna, en 154 daginn þar á undan. Þetta er metfjöldi í greindum smitum á Íslandi. 15 liggja nú á Landspítalanum með veiruna, samkvæmt tölum á Covid.is, en þeir voru 12 í gær. Þá voru tveir á gjörgæslu. Alls hafa 806 smit greinst hér á landi undanfarna viku og hefur nýgengi innanlandssmita aldrei verið hærra en nú, 358. Það varð mest 291, í október í fyrra.  

Töluvert færri sýni voru tekin í gær heldur en undanfarna daga og segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsngafulltrúi almannavarna, lítið hægt að meta stöðuna út frá þeim sveiflum sem hafa mælst í greindum smitum núna um verslunarmannahelgina. Hún býst við svipuðum tölum á morgun miðað við fjölda sýna. 

Ég held við þurfum áfram að bíða og sjá hvernig næsta vika verður. Það er talan utan sóttkvíar sem við erum að hafa áhyggjur af. Þegar sú tala fer að minnka þá líður okkur held ég öllum betur. 

Nokkur hluti innanlandssmitanna eru ferðamenn á leið úr landinu sem fara í skimun til að fá PCR próf. Hjördís segir þó að flest smitin sem greinast séu Íslendingar. 

„Þar af leiðandi höfum við meiri áhyggjur af tölunum vegna þess að Íslendingarnir fara og hitta fólkið sitt og eru í þessum stóru hópum eins og við þekkjum núna um helgina.” 

Ísland er að vakna eftir þessa helgi og allir að koma til baka í vinnuna. Og því biðjum við fólk með einkenni að fara frekar í sýnatöku en í vinnuna.

Hvenær teljiði að við séum að fara að sjá smitin eftir verslunarmannahelgina? 

„Þetta eru tíu dagar til tvær vikur sem þetta tekur til að komast inn í kerfið hjá okkur. 

Er einhver upplýsingafundur í kortunum? 

„Já, við ætlum að vera með upplýsingafund á morgun. Við horfum á þá til að upplýsa þjóðina beint í æð. Það má vel vera að mörgum finnist hlutirnir orðnir þreyttir en þetta er okkar leið til að koma upplýsingum beint til fólksins.”