Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfir 700 bjargað á Miðjarðarhafi um helgina

epa07752321 The new rescue vessel 'Ocean Viking' of the French NGO SOS Mediterranee and Doctors Without Borders is moored in the port of Marseille, France, 01 August 2019.  EPA-EFE/SEBASTIEN NOGIER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Björgunarsveitir á Miðjarðarhafi komu yfir 700 manns til aðstoðar nú um helgina, undan ströndum Líbíu og Möltu. Fólkið var að reyna að komast frá Afríku yfir Miðjarðarhafið til Evrópu.

Samkvæmt upplýsingum mannréttindasamtakanna SOS Mediterranee var það skip þeirra Ocean Viking sem bjargaði fólkinu í sex aðgerðum.

Aðfaranótt sunnudags hjálpuðust áhafnir þriggja skipa að við að bjarga 400 manns í lekum bát í vanda úti á rúmsjó. SOS Mediterranee greinir frá því að yngsti skipbrotsmaðurinn sé þriggja mánaða barn.

Nú er vel á sjötta hundrað um borð í Ocean Viking, þar á meðal 28 konur og tvær þeirra þungaðar. Enn liggur ekki fyrir hvar fólkið verður látið á land.

Tugir þúsunda flýja Líbíu ár hvert og leggja í hættuför yfir Miðjarðarhafið, helst til Ítalíu í þrjú hundruð kílómetra fjarlægð.

Celine Schmitt, talskona Frakklandsdeildar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sagði í síðasta mánuði að brýnt væri að koma á alþjóðlegu kerfi til sem kvæði á um hvar flóttafólki yrði komið fyrir, fremur en að láta hvert og eitt Miðjarðarhafsríkjanna glíma við það.