Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vonast til að geta saxað á boðunarlistann

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Undanfarið hálft ár hefur fækkað nokkuð á lista yfir þá sem bíða eftir því að komast í afplánun. Fangelsismálastjóri bindur vonir við að með nýrri lagaheimild verði hægt að saxa á biðlista og koma í veg fyrir að tugir fangelsisdóma fyrnist. Erfitt er að segja til um hvort hægt verði að stytta boðunarlista til frambúðar því dómar hafa almennt þyngst. Í fyrra var samanlögð refsiþyngd dóma 416 ár.

Spenntur fyrir áhrifum breytingarinnar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra lagði lagabreytinguna til í vor. Til bráðabirgða verður heimilt að leyfa þeim sem fengið hafa tveggja ára óskilorðsbundinn dóm að afplána með samfélagsþjónustu, en áður átti það einungis við um þá sem höfðu fengið árslangan dóm eða styttri. Lagabreytingin var samþykkt á Alþingi um miðjan júní og gildir til þriggja ára. Páll Winkel fangelsismálastjóri fagnar breytingunni, „ég tel að þessi breyting sé mjög góð og það verður spennandi að sjá hvaða áhrif þetta hefur á boðunarlistann til lengri tíma, við munum örugglega ná að fullnusta meira heldur en hingað til, það er alveg klárt mál, óvissuþátturinn í þessu er þáttur dómstóla“. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Páll Winkel.

Færri bíða afplánunar í fangelsi

Nú bíða um 650 eftir afplánun en í lok síðasta árs voru það rúmlega 715. Fækkað hefur um rúmlega fjörutíu á lista þeirra sem bíða eftir að afplána í fangelsi. Á móti kemur að fleiri bíða eftir afplánun með samfélagsþjónustu. Þar hefur heimsfaraldurinn spilað inn í því margir vinnustaðir sem voru með samfélagsþjóna lokuðu. „En þetta er allt komið af stað aftur og lítur vel út,“ segir Páll. 

Mynd með færslu
 Mynd: fangelsismálastofnun

416 ár í fangelsi

Það er mjög misjafnt milli ára hversu þungar refsingar dómstólar dæma, í fyrra nam samanlögð lengd fangelsisdóma, eða heildarrefsitími 416 árum og hefur aðeins einu sinni verið lengri. Þetta hefur áhrif á hversu vel gengur að stytta listana. „Þegar ég er spurður hvenær ætlarðu að klára þessa boðunarlista þá get ég ekki svarað því vegna þess að dómstólar sveiflast fram og til baka í refsingum, jafnvel 50-70% milli ára. Það er ekkert við neinn að sakast, þetta er bara réttarkerfið að virka vel, lögreglan að standa sig vel, ákæruvaldið og dómstólar, svo er það bara okkar að taka við,“ segir Páll. Það stefnir í að heildarrefsitími verði líka langur í ár. 

Mynd með færslu
 Mynd: fangelsismálastofnun

21 mál fyrnst á árinu

Það sem af er þessu ári hefur 21 refsing fyrnst, Páll Winkel segir að þetta séu oftast minniháttar mál og til dæmis engin gömul hrunmál þar á meðal. Stofnunin hefur gefið út handtökubeiðni vegna annarra dóma sem eiga að fyrnast á árinu. Því ætti fyrningum ekki að fjölga mikið á árinu að sögn Páls. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV