Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Við erum bara með kakó úr Múmíndalnum“

01.08.2021 - 19:29
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / Rúnar Snær Reynisson
Veðrið lék við gesti Atlavíkur í gærkvöldi og nótt þar sem fólk skemmti sér með vinum og fjölskyldu þó djammið væri lágstemmdara en árið 1984 þegar Ringo Starr tróð upp. Sumir skáluðu í kakóglundri úr Múmíndalnum en aðrir létu bjórinn duga. 

Staðurinn sem lagið Útihátíð var samið um

Það er komin löng hefð fyrir hátíðahöldum í Atla- og Höfðavík í Hallormsstaðaskógi um versló. Hljómsveitir trylltu hér áður fyrr kennd ungmenni sem grófu flöskurnar víðs vegar um svæðið, enda áfengisdrykkja stranglega bönnuð. Greifarnir gerðu hátíðina ódauðlega með lagi sínu Útihátíð en líklegast var toppnum náð árið 1984 þegar bítillinn Ringo Starr mætti á svæðið ásamt Barböru Bach, konu sinni - og þau komu sko ekki til að sofa. Í viðtali við Boga Ágústsson greina þau frá því að þau hafi djammað nær alla nóttina, svefninn hafi verið af skornum skammti. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson
Barbara og Ringo eftir skrallið í Atlavík.

Þarf ekki skipulagða dagskrá

Færri komust í gær að en vildu á tjaldsvæðinu í Höfðavík og svo virtist sem ekki þyrfti skipulagða dagskrá til að verslunarmannahelgarandinn svifi yfir og á tjaldgesti. Krakkarnir léku sér í stuttbuxnaveðri langt fram eftir kvöldi, bæði í fótbolta og badmintonkeppni, einhverjir gripu í gítar og aðrir í spilastokkinn. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson
Gripið í spil.

Stemningin í gær var lágstemmdari en árið 1984 og kannski lýsandi fyrir það hvernig flestir skemmta sér þessa verslunarmannahelgi en hún var þó vel til staðar. Fólk saup á allskyns glundri. „Við erum bara með kakó úr Múmíndalnum,“ staðhæfði eldhress Eskfirðingur, en samferðalangur hans viðurkenndi hvernig í pottinn var búið: „ Ég er sko ekki með kakó úr Múmíndalnum, ég er með Stroh.“