Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Unnið að þróun bóluefnis í töfluformi gegn COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ísraelska lyfjafyrirtækið Oramed vinnur nú að þróun lyfs við COVID-19 sem hægt væri að taka í pilluformi. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir lyf á töfluformi hafa marga kosti umfram þau sem gefin eru með sprautu.

Klínískar rannsóknir, eða meðferðartilraunir, hefjast nú í ágúst samkvæmt því sem Nadav Kidron forstjóri fyrirtækisins segir í samtali við AFP-fréttaveituna. Hann segir lyf í pilluformi sérlega hentug fyrir þróunarlöndin því þá þurfi ekki að skipuleggja flóknar bólusetningarherferðir.

Pillur gætu einnig hentað vel annars staðar því iðulega sé horft framhjá óttanum við nálar sem ástæðu þess að fólk forðast að mæta í bólusetningu. Nýleg könnun sýnir að 19 milljónir Bandaríkjamanna nefna það sem ástæðu þess að mæta ekki. 

Annar ágóði felist í minni sóun á plasti og sprautunálum auk þess sem Kidron nefnir að mögulega fylgi færri aukaverkanir töflum en sprautuðu bóluefni. 

Kidron bendir á að aðeins 15% mannkyns séu bólusett við COVID-19 og því sé langt í land með að viðureigninni við veiruna sé lokið. „Til þess að bóluefnið gagnist sem best verður að gefa það eins mörgum og mögulegt er,“ segir hann. 

Meltingarvegurinn er mikil áskorun

Þrátt fyrir að kenningar séu uppi um ávinning af bóluefni í töfluformi sýnir sagan að fátítt sé að nást hafi árangur með það. Í samantekt AFP-fréttaveitunnar segir að ástæðan sé sú að virk efni þeirra lifa ekki af ferðina í gegnum meltingarveginn. 

Undantekningar séu bóluefni við sjúkdómum sem smitast um munn og meltingarveg, til að mynda eru til góð bóluefni gegn lömunarveiki sem tekin eru sem töflur. 

Oramed telur sig hafa komist fyrir þá áskorun sem sýrurnar í maganum eru með því að hanna hylki sem lifir þær af. Það þróaði þá tækni við gerð tilraunaútgáfu af sykursýkilyfinu insúlíni en ytri hjúpur töflunnar er gerður úr efnum sem brotna hægt niður. 

Það lyf hefur verið reynt á hundruðum sykursýkisjúklinga í Bandaríkjunum og er niðurstaðna að vænta í september á næsta ári.