Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Túnisforseti hvattur til að virða leikreglur lýðræðis

A Tunisian police officer scuffles with protesters during a demonstration in Tunis, Tunisia, Sunday, July 25, 2021. Violent demonstrations broke out on Sunday in several Tunisian cities as protesters expressed anger at the deterioration of the country's health, economic and social situation. (AP Photo/Hassene Dridi)
 Mynd: AP
Bandaríkjastjórn hvetur Túnisforseta til að mynda starfhæfa ríkisstjórn svo hægt verði að takast á við erfiðleika í landinu. Hann þurfi að hafa lýðræði að leiðarljósi.

Bandaríkjastjórn ráðleggur Kais Saied Túnisforseta að virða reglur lýðræðisins og snúa þegar í þá átt. Þetta var meðal þess sem kom fram í klukkustundarlöngu samtali Jakes Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafa Bidens Bandaríkjaforseta við Saied í dag.

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu kemur fram að Sullivan áréttaði stuðning Bandaríkjanna við lýðræði í Túnis sem byggt væri á grundvallarréttindum fólks, styrkum stofnunum og tilvist réttarríkis.

Sullivan brýndi Saied til að mynda þegar í stað ríkisstjórn leidda af hæfum forsætisráðherra sem einbeitti sér að því að koma á efnahagsstöðugleika og glíma við afleiðingar kórónuveirufaraldursins. 

Vika er síðan Saied rak Hichem Mechichi forsætisráðherra landsins og sendi löggjafarþingið í þrjátíu daga leyfi. Tíðindi bárust af því í gær að Rached Ghannouchi, sem er áttræður formaður flokks forsætisráðherrans, hafi veikst en þó ekki alvarlega.

Hann er forseti þingsins, hefur lagt hart að forsetanum að virða lýðræðið og hefur ýjað að því efnt verði til kosninga í landinu takist forsetanum ekki það ætlunarverk sitt að mynda ríkisstjórn.

Forsetinn boðaði nú í vikunni að komist yrði fyrir spillingu í landinu meðal stjórnmálamanna og í viðskiptalífinu. Hann beindi spjótum sínum að á fimmta hundrað kaupsýslumanna og boðaði rannsókn á ólöglegum fjárstuðningi við stjórnmálaflokka í landinu.

Framferði forsetans hefur skapað pólítískan glundroða í Túnis. Ríkið á í miklum kröggum, verðbólga er há og atvinnuleysi verulegt auk þess sem vandi steðjar að vegna mikillar fjölgunar kórónuveirusmita.