Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Talíbanar sitja um þrjár lykilborgir í Afganistan

epa09381766 Afghan security officials stand guard at a roadside check point in Herat, Afghanistan, 31 July 2021. The United Nations office in Afghanistan's western Herat province was attacked by "anti-government elements" on 30 July, who killed one Afghan security guard while many officials have been injured, the organization reported. The area where the UN compound is situated in Herat witnessed intense fighting between the Taliban and Afghan security forces on 30 July.  EPA-EFE/JALIL REZAYEE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Harðir bardagar geysa nú milli stjórnarhers Afganistan og Talibana um borgir í suður og vesturhluta landsins. Á síðustu vikum hafa Talibanar lagt undir sig stór svæði í Afganistan en  stjórnarhernum gengur illa að verjast ásókn þeirra.

Harðar atlögur Talibana hófust eftir að bandarískur her tók að yfirgefa landið samkvæmt ákvörðun Donalds Trump fyrrverandi forseta sem Joe Biden, arftaki hans, svo staðfesti.

Talibanar beina nú helst sjónum að borgum og hætta er talin á að þeir nái Lashkar Gah undir sig á næstum dögum.

Þeir hafa náð tökum á hlutum Lashkar Gah og borganna Herat og Kandahar og örlög þeirra ráðast af því hve lengi stjórnarherinn heldur út í baráttunni.

Heimildir breska ríkisútvarpsins herma að áhlaupi Talibana að skrifstofum landsstjórans í Lahkar Gah hafi verið hrundið í kvöld en undanfarna tvo daga hafa þeir gert harða atlögu að þeim. Ógnin er sömuleiðis mikil í hinum borgunum tveimur sem eru umkringdar sveitum Talibana.

Samkvæmt upplýsingum yfirmanns í stjórnarhernum tókst að fella nokkurn fjölda manna úr sveitum Talibananna. Álitið er að þeir hafi komið sér fyrir á heimilum fólks í borginni sem geri stjórnarhernum erfiðara fyrir að hrekja þá á braut. 

Talið er að Talibanar hafi þegar náð helmingi Afganistan undir sig, þar á meðal mikilvægum svæðum sem liggja að landamærum Pakistan og Íran. 

Tomas Niklasson sérstakur sendifulltrúi Evrópusambandsins í landinu telur ástandið eiga eftir að versna til muna enda séu Talibanar staðráðnir í að ná stjórn Afganistan að nýju, en þeir höfðu völdin þar frá 1996 til 2001.