Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki spurning hvort heldur hvenær CBD-olía verði lögleg

01.08.2021 - 10:26
Ræktun á iðnaðarhampi er fimmfalt meiri í sumar en í fyrra. Frumkvöðull í ræktun og nýtingu hamps vill að sala á CBD-olíu úr íslenskum hampi verði leyfð hið snarasta.

Í Gautavík í Berufirði er ræktaður hampur þriðja sumarið í röð og nú meðal annars í nýju kúluhúsi á lóðinni. Gerðar eru tilraunir með ýmsar tegundir iðnaðarhamps. Þar er handverksverslun og matvælum smáframleiðenda gert hátt undir höfði og er býlið opið öllum sem vilja fræðast um fjölbreytta notkun plöntunnar. Í fræðslusetrinu er ræktaður hampur með samrækt. Þar kemur næringin úr skítnum frá bleikjum sem synda um í stóru kari. Vísindamaðurinn er á kafi í tilraunum sínum.

„Heyrðu, við erum að gera tilraunir með batterí úr hampi. Það er nefnilega hægt að taka trefjarnar, kola þær og þá fáum við mjög basískt efni eða alkaline. Bara eins og alkaline-batterí eru og þeir segja gárungarnir að þetta sé tíu sinnum betra heldur en lithium-batterí þannig að það er nú aldeilis hægt að nota þetta í eitthvað. Lithium-námur eru kannski ekkert spes en það er ekkert mál að rækta hamp í þetta,“ segir Pálmi Einarsson, iðnhönnuður í Gautavík.

Ræktun á iðnaðarhampi var nýverið færð frá Lyfjastofnun til Matvælastofnunar. Hann fellur ekki lengur undir lög um ávana- og fíkniefni og því þarf ekki undanþágu frá Lyfjastofnun til að flytja inn fræ. Ein helsta afurðin er svokölluð CBD-olía en Evrópudómstóllinn úrskurðaði nýverið að hún flokkaðist sem matvæli og óheimilt væri að hindra viðskipti með hana. „Og því er það ekki spurning um hvort heldur hvenær CBD-olía til inntöku verður lögleg hér á landi. Þúsundir Íslendinga eru að nota CBD-olíu í dag og því miður þurfa þeir að nálgast hana á gráa markaðnum eða flytja hana inn sjálfir. Þeir eru að nota hana við alls kyns kvillum, eins og til að bæta svefn, kvíða og þunglyndi og slíkt. Gigt, verki, bólgusjúkdóma, höfuðverki og mígreni,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir, ábúandi í Gautavík.

Starfshópur landbúnaðarráðherra skoðar nú hvort og hvernig breyta þurfi lögum og reglum til að opna fyrir viðskipti með CBD-olíu. „Þannig að það er bara réttindamál og lýðheilsumál að íslenskur almenningur hafi aðgang að þessu góða náttúrulega bætiefni sem er í þessari plöntu sem kínversk goðsögn segir að guð hafi fært mönnunum að gjöf til að uppfylla flestar þarfir þeirra,“ segir Oddný Anna.

Fræðast má um starfsemina í Gautavík á facebook-síðu býlisins.