Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Eins og fyrir aðra að vinna titilinn“

Mynd: EPA / EPA

„Eins og fyrir aðra að vinna titilinn“

01.08.2021 - 06:59
Aron Kristjánsson, þjálfari Barein, var eðlilega mjög sáttur við sæti í 8-liða úrslitum handboltakeppninnar í Tókýó. Hann segir mótið ákveðinn sigur fyrir asískan handbolta. Dagur Sigurðsson, þjálfari Japan, segist stoltur af frammistöðu sinna manna, sem unnu Portúgal í dag.

Japan, Barein og Portúgal enduðu jöfn í B-riðli eftir sigur Japan á Portúgal í nótt. Í handbolta er notast við innbyrðisúrslit til að gera upp á milli liða sem enda jöfn. Japan vann Portúgal sem vann Barein sem vann Japan og því réði markatalan í leikjum liðanna. Þar var Barein í bestri stöðu og fer áfram í 8-liða úrslit. Barein er á sínum fyrstu Ólympíuleikum og Aron segir þennan árangur risastóran.

„Ég myndi segja að þetta sé svolítill sigur fyrir asískan handbolta, þessi Ólympíuleikar. Við búnir að spila mjög vel og komnir áfram í 8-liða úrslit, það segir manni að það sé hægt að gera margt með góðri vinnu og útsjónarsemi,“ sagði Aron að loknu tapi sinna manna gegn Egyptalandi í morgun.

Aron viðurkennir að fáir hafi átt von á að Barein myndi ná að komast áfram, enda handboltakeppnin ákaflega sterk.

„Það er bara ótrúlegt og kannski ekki eitthvað sem maður þorði að vona fyrir mótið. Ég er bara þannig að ég fer í alla leiki til að vinna, alveg sama hver mótherjinn er en kalt mat fyrir mótið þá hefði verið hægt að segja: Þeir eiga ekki séns, fimmta eða sjötta sætið í riðli, en við vorum með viss tromp á hendi að koma á óvart með vissa hluti.“

Barein mætir Frakklandi í 8-liða úrslitum og Aron vill sjá sína menn leggja sig alla fram í það verkefni, tapið gegn Egyptalandi segi ekkert um getu síns liðs.

„Í dag var þetta spennufall eftir að fá að vita rétt fyrir leik að þeir séu komnir áfram. Þetta er risastórt, þetta er eins og fyrir einhverjar aðrar þjóðir eins og að vinna titilinn. Nú er bara að safna vopnum fyrir mjög erfiðan leik gegn Frökkum,“ segir Aron Kristjánsson.

Viðtalið við Aron má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.

„Áttum ekki skilið að fara áfram“

Sigur Japan á Portúgal átti stóran þátt í að Barein komst áfram. Sigurinn var sá fyrsti hjá japanska liðinu á mótinu og Dagur Sigurðsson, þjálfari þeirra, segir hann hafa verið þeirra besta leik. Þó sé sigurinn aðeins sár því aðeins vantaði tvö mörk til að komast áfram.

„Já, þetta er svona súrsætt. Frábært að fá sigur og enda mótið á jákvæðum nótum. Líka langbesti leikur. Þeir eru búnir að vera svolítið upp og niður. Við áttum ekki skilið að fara áfram úr riðlinum, ég get alveg verið heiðarlegur með það. Ég held að Barein eigi það skilið, þeir áttu frábæra leiki gegn Svíum og Portúgal og hefðu átt að ná sér í stig þar. Þannig að Aron og félagar eru mjög vel að þessu komnir,“ segir Dagur.

Dagur er með ungt japanskt lið í höndunum, en lið þeirra er það yngsta í handboltakeppninni. Hann segir undirbúninginn hafa farið í vaskinn vegn Covid-19, liðið átti að spila 20 leiki í aðdraganda leikanna en spilaði engan. Hann er spenntur fyrir komandi verkefnum hjá liðinu, en hann er með samning fram yfir Ólympíuleikana í París 2024.

„Ég veit að þetta tekur langan tíma og ég hef bara mjög gaman að því. Samningurinn er framyfir leikana í Frakklandi og markmiðið er að reyna að komast inn á þá og það er mjög erfitt úr þessum Asíuriðli, en Aroni tókst það. Vann á móti Katar. Katar er í rauninni með yfirburðalið í Asíu en Aroni tókst það og þá hlýtur þetta að vera hægt fyrir okkur líka.“

„Við erum orðnir miklu, miklu betri og þeir eru að læra. Það má ekki gleyma því að við erum með yngsta liðið í keppninni. Við erum búnir að yngja hressilega upp og það er synd að við skyldum ekki fá þessa 20 landsleiki sem voru planaðir í undirbúningi leikanna. Þrír, fjórir ungir strákar hefðu haft gott af því að fá 20, 25 landsleiki til að setja í bankann.“

Viðtalið við Dag má sjá í heild sinni hér að neðan.

Mynd: EPA-EFE / EPA