Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bandaríkin saka Íran um árás á olíuskip

01.08.2021 - 20:33
epa07645239 A handout photo made available by Iran's official state TV (IRIB) allegedly shows the crude oil tanker Front Altair on fire in the Gulf of Oman, 13 June 2019. According to the Norwegian Maritime Authority, the Front Altair is currently on fire in the Gulf of Oman after allegedly being attacked and in the early morning of 13 June between the UAE and Iran.  EPA-EFE/IRIB NEWS HANDOUT BEST QUALITY AVAILABLE. MANDATORY CREDIT. HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Norska olíuskipið Front Altair á Ómanflóa í morgun. Mynd: EPA-EFE - IRIB NEWS
Mannskæð árás var gerð á ísraelskt olíuskip síðastliðinn fimmtudag og segjast Bandaríkin þess fullviss að Íranir standi að baki henni. Íran þvertekur fyrir alla aðild að árásinni.

 

Bandaríkin sökuðu í dag Íran um drónaárás á ísraelskt olíuskip við strendur Óman þar sem tveir skipverjar létu lífið, og hétu því að von væri á „viðeigandi viðbrögðum“ eins og það var orðað. 

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í yfirlýsingu að fyrirliggjandi upplýsingar bentu með óyggjandi hætti til þess að Íran hafi framið árásina. 

Fyrr í dag neitaði Íran aðild að árásinni. Talsmaður utanríkisráðuneytisins, Saeed Khatib-zadeh, svaraði Bandaríkjamönnum fullum hálsi á blaðamannafundi og sagði að Íran myndi ekki hika eitt augnablik við að verja hagsmuni sína og þjóðaröryggi.