Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Allir fatta að þetta er mjög einstakt“

01.08.2021 - 20:00
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Eyjamenn reyna að gera sér glaðan dag og gera gott úr hlutunum þótt löngunin til að vera í Herjólfsdal sé sterk. Fjölskylda sem fagnar saman í hvítu tjaldi í garðinum segist fullviss um að Þjóðhátíð verði haldin á næsta ári. Þrátt fyrir tóma brekku verður ekkert slegið af í brekkusöngnum í Vestmannaeyjum. Tónleikahaldarinn býst við einstakri stemningu í kvöld.
Mynd með færslu
 Mynd: Ruv

Það var svolítið kuldalegt um að litast í Herjólfsdal, þokan teygði sig langt niður í hlíðar og ekki laust við að sviðið, sem er býsna tilkomumikið, hafi virst svolítið einmanalegt. Venjulega er mannhaf í brekkunni en nú er þar ekki sála, engin breiða af hvítum tjöldum en nokkur tjöld og eitt hjólhýsi var á tjaldsvæðinu í dalnum, síðdegis í dag. Þaðan voru allir reknir þegar nær dró tónleikunum.  Það má nefnilega engin vera í brekkunni á meðan söngnum verður streymt.

Mynd með færslu
 Mynd: Ruv
Fólkið í eina hjólhýsinu var heldur svekkt að missa af því að syngja í brekkunni en ætlaði að fara í bæinn og hafa ofan af sér þar á meðan tjaldsvæðið yrði lokað.

Í bænum reynir  fólk að gera gott úr hlutunum, hver hópur í sínu hvíta tjaldi, annað árið í röð. „Það var svolítil fýla í fjölskyldunni fram eftir vikunni og það var eiginlega ekki fyrr en á föstudaginn að fólk svona kveikti á, ókei við gerum þetta,“ segir Ólöf Aðalheiður Elíasdóttir. Hildur Magnúsdóttir sem fagnar með henni, segir að helgin verði öðruvísi. „Maður hittir færra fólk og færri ofan af landi,“ hún segir börnunum hennar svíði meira að geta ekki verið í dalnum, sjálfri finnist henni fínt að vera heima. Sonur hennar, Björn Elíasson, var ekki sammála. „Þetta er allt í lagi en það er miklu skemmtilegra að vera inni í dal og upplifa þjóðhátíð þar.“ Þau eru fullviss um að Þjóðhátíð verði haldin á næsta ári, þessar heimahátíðir verði sko ekki reglan héðan í frá. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ruv
Björn Elíasson.

Stemningin í Eyjum er öðruvísi en margir vonuðust til þessa verslunarmannahelgi en það er ekki mikill barlómur í veitingamanninum Kára Vigfússyni. „Sumarið er búið að vera gott en þetta var náttúrulega högg að fá ekki að halda Þjóðhátíð, flestir eru náttúrulega sárir og eru að verða af einhverjum tekjum en sumarið er gott og við höfum trú á því að í ágúst verði þessu aflétt. Við tökum haustið svo bara á kassann.“ 

Tónlistarmenn æfðu sig fyrir brekkusönginn í dag, frammi fyrir tómum dal og engu til sparað. „Það var bara ákveðið að slá ekkert af, gera þetta bara en bara fyrir kameruna og þar með fólkið heima í stofu. Nú er rennsli í gangi og það er að skapast mjög sérstök stemning innan hópsins, allir að fatta að þetta er mjög einstakt, gerist líklega aldrei og vonandi aldrei aftur, “ segir Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu ehf. 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Ísleifur.

Stjórnandinn, Magnús Kjartan Eyjólfsson, er klár í að leiða sinn stærsta brekkusöng til þessa frammi fyrir tómri brekku, með svolítinn hnút í maganum en búinn að venjast stemmningunni, „hún er bara alveg ágæt, hún var skrítin í gær svo kemur maður hérna og horfir í kringum sig og það er eiginlega sama hvort það er einhver í brekkunni eða ekki, maður fyllist lotningu yfir þessu svæði.“

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Ragga Gísla breiðir út faðminn.

Það virtist venjast furðuvel að syngja fyrir hraun og mosa. Ragga Gísla, tónlistarkona, kvartaði að minnsta kosti ekki. „Maður verður bara kærulausari og þetta er svo mikil fegurð, ég elska svo mikið Vestmannaeyjar að ég held að þó að það væri bara einn í brekkunni eða enginn þá er það bara landið.“ Hún syngi fyrir vini sína, fólkið úti í bæ og alla þjóðina. Pálmi Gunnarsson, tónlistarmaður, talaði á svipuðum nótum. „Maður setur bara í ímyndunargírinn og svo er náttúrulega þetta fólk úti sem er að horfa. Ég hugsa til þess.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV