Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Skatturinn þarf að afhenda þinginu framtöl Trumps

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur fyrirskipað þarlendum skattayfirvöldum að afhenda þinginu skattframtöl Donalds Trump, fyrrverandi forseta. Ákvörðunin mun að líkindum binda enda á langan slag fyrir dómstólum um framtölin og er niðustaðan talin harður skellur fyrir Trump.

Þó að þess sé ekki krafist samkvæmt lögum hafa allir Bandaríkjaforsetar síðan 1976 - nema Trump - gert skattframtöl sín opinber. Trump hefur enn ekki tjáð sig opinberlega um niðurstöðuna, þó hann hafi mögulega enn krókaleiðir til að berjast gegn úrskurðinum fyrir dómstólum. Þetta segir á vef dagblaðsins  Washington Post.

Í forsetatíð sinni sagði Trump ítrekað að hann væri undir endurskoðun hjá skattayfirvöldum og gæti því ekki gefið upp skattframtal sitt, þrátt fyrir að skatturinn hafi sagt að slík úttekt ætti á engan hátt eiga að koma í veg fyrir birtingu upplýsinganna.

Í áliti, sem birt var á föstudag, kom fram að dómsmálaráðuneyti dómsmálaráðuneytisins komst að þeirri niðurstöðu að þingnefnd „hafi sýnt fram á nægilegar ástæður“ til að óska ​​eftir skattupplýsingum.

Meðal þeirra sem fögnuðu ákvörðuninni var Demókratinn Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar þingsins, sem sagði að bandaríska þjóðin „ætti skilið að vita allar staðreyndir um hina uggvænlegu hagsmunaárekstra Trumps sem grófu undan öryggi okkar og lýðræði meðan hann var forseti“.

Repúblikanar á þinginu fordæmdu ákvörðunina hins vegar og lýstu henni sem knúinni af pólitískum hvötum. 

Sjálfur hefur Trump varið skattframtöl sín með oddi og egg og iðulega kallað rannsóknir á skattamálum sínum nornaveiðar.

Jón Agnar Ólason