Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rafmagn komið á í Bláskógabyggð

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Rafmagn er komið á sumarbústaðabyggðina í Brekkuskógi. Rafmagnslaust varð víða um Bláskógabyggð þegar eldingum laust niður í spenna síðdegis í gær.

Skipta varð um spenna sem urðu fyrir eldingum í eldingaveðrinu samkvæmt upplýsingum svæðisvaktar RARIK á Suðurland. Nokkrir tugir húsa í Brekkuskógi voru því rafmagnslaus í nótt. Enn á eftir að skipta út einum spenni. 

Óvenjulegt eldingaveður gekk yfir Suðurland í gær með mikilli og skyndilegri úrkomu.

Alls komu milli áttatíu og níutíu eldingar fram í gær á eldingamælum Veðurstofunnar að því er Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur greinir frá á Facebook síðu sinni.

Einar segir eldingarnar hafa verið í tveimur skýrt afmörkuðum klösum, sá fyrri norður af Laugardal/Efstadal og sá síðari yfir Landssveit og á milli Búrfells og Heklu. 

Uppfært klukkan 8.30

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá RARIK er rafmagn komið alls staðar á. Búið er að skipta um síðasta spenninn og engin merki um frekara rafmagnsleysi.