Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Maður verður að hafa háleit markmið“

Mynd: María Björk Guðmundsdóttir / RUV

„Maður verður að hafa háleit markmið“

31.07.2021 - 06:46
Guðni Valur Guðnason, kringlukastari, segist hafa háleit markmið til framtíðar, eftir að hafa fallið úr keppni á Ólympíuleikunum í gær. Hann væri til í betri aðstöðu til æfinga heima á meðan veðrið hindrar köst utandyra.

 

Guðni Valur vill lítið dvelja við fortíðina og segir hvort eð er ekki hægt að breyta henni.

„Það er náttúrulega svekkjandi að hafa ekki gert betur á þessu móti, en það er ekkert sem ég get gert í því núna,“ sagði Guðni Valur þegar RÚV hitti á hann í Ólympíuþorpinu í morgun.

„Þetta bara gekk ekki, þetta var einhver einn punktur sem ég klúðraði og þá fór kastið bara soldið í rugl.“

Guðni Valur hefur verið að berjast við meiðsli í nára af og til undanfarin misseri. Nú vill hann ná sér endanlega góðum af þeim og setja enn meiri kraft í æfingar.

„Þá get ég kastað meira og æft meira og bara það eitt myndi hjálpa hrikalega.“

Maður verður að gera eitthvað

Það er ekki auðvelt að vera í langkastgrein á Íslandi. Veturinn er langur og þá er lítið hægt að kasta utanhúss. Innanhúss er aðstaðan einfaldlega ekki til staðar.

„Það er erfitt að kasta alltaf í net og þótt það hjálpi af og til að kasta í net getur það líka skemmt fyrir. Það þyrfti að fá að kasta oftar innanhúss, nýta Egilshöllina og slíkt í það. Vonandi fáum við að setja upp einhverja tíma í vetur, það væri óskandi.“

Guðni Valur segir það ekki endilega vera einhverja töfralausn að komast til útlanda að kasta.

„Það hefur allt sína kosti og galla. Pétur, þjálfarinn minn, er á Íslandi og það er rosalega gott að vera með þjálfarann með sér. Ég fór í æfingabúðir á Tenerife í mánuð þegar allt fór í lás heima og rafleikjamót í Höllinni, þá flúði maður land. Ég er með Pétur á messenger, í vídeói, en að hann geti séð mann í rauntíma er mun betra. Þetta er erfitt, maður veit ekki hvað maður gerir. Maður verður að gera eitthvað til að kasta lengra, allavega,“ segir Guðni.

Á nóg eftir og enn á uppleið

Guðni Valur er 25 ára gamall, sem er enginn aldur hjá kastara. Framundan á næsta sumri er bæði HM og EM í frjálsum og svo eru næstu Ólympíuleikar eftir þrjú ár og svo fjögur í viðbót í næstu þar á eftir.

„Þótt það hafi gengið skelfilega á þessu móti er þetta besta ár mitt, meðaltalslega. Ég á inni og nú ætlum við að fara í tæknibreytingar, bara örlitlar, og bara negla á næstu ár. Næstu fimm, sex ár er allt á leið uppávið á ferlinum og 30 ára, 31 árs gæti allt eins verið toppurinn.“

„Ég hugsa að næstu tveir leikar gætu orðið toppurinn á mínum ferli. Ég lít mjög spenntur á næstu leika og ætla mér að gera stóra hluti þar, eins og maður ætlar sér nú oft en kannski tekst ekki alltaf. En maður verður bara að hafa háleit markmið og halda áfram. Það þýðir ekki að vera svekkja sig á einhverju sem gerðist í fortíðinni, það er bara að horfa áfram og brosa,“ segir Guðni og hlær.

 

Tengdar fréttir

Ólympíuleikar

Guðni Valur úr leik í kringlukastkeppninni