Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hvetur til bólusetningar ófrískra kvenna vegna delta

31.07.2021 - 10:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Ný rannsókn á afleiðingum delta-afbrigðis COVID-19 varð til þess að bresk yfirvöld skoruðu á ófrískar konur að fara í bólusetningu. Rannsóknin leiddi í ljós að samfara því að delta hefur breiðst út í Bretlandi hefur þeim ófrísku konum sem veikjast alvarlega fjölgað mjög.

Jacqueline Dunkley-Bent, æðsti embættismaður Englands þegar kemur að ráðgjöf við ófrískar konur um meðgöngu, sendi læknum og ljósmæðrum bréf í gær. Þar lagði hún mikla áherslu á að ófrískar konur fengju bólusetningu. Hún hvatti ófrískar konur einnig til að vernda sjálfar sig og börn sín með því að láta bólusetja sig.

Samtök fæðingarlækna og ljósmæðra í Englandi hafa undanfarið hvatt til þess að ófrískar konur verði bólusettar. Þarlend heilbrigðisyfirvöld hafa mælt með því að ófrískar konur fái bóluefni frá Moderna eða Pfizer og vísa til reynslunnar af bólusetningum vanfærra kvenna í Bandaríkjunum.

Tekið var til við að bólusetja óléttar konur skipulega hérlendis í vikunni.