Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Harmar stöðu EFTA-dómstóls og gagnrýnir Pál

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, fer hörðum orðum um stöðu dómstólsins og um núverandi forseta hans í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann vægi dómstólsins hafa minnkað vegna þess að dómstólar EFTA-ríkjanna leiti í minna mæli en áður til dómstólsins með úrlausnarefni. Jafnframt gagnrýnir hann Pál Hreinsson, eftirmann sinn í dóminum, og segir verkefni hans fyrir íslensk stjórnvöld hafa orðið til þess að Páll glataði sjálfstæði sínu.

Baudenbacher segir í grein sinni að íslenskir dómstólar séu nokkurn veginn hættir að vísa málum til Lúxemborgar, norskir dómstólar haldi því hins vegar áfram og geti vænst niðurstaðna sem séu í samræmi við þeirra vilja og norskra stjórnvalda. Forsetinn fyrrverandi segir að áður hafi EFTA-dómstóllinn haft umtalsverð áhrif á dómstóla Evrópusambandsins en þeir séu nú nánast hættir öllum réttarfarslegum samskiptum við hann. „Þetta hefur veikt stöðu EFTA-stoðarinnar gagnvart ESB. Hæpið er að úrskurður eins og sá sem kveðinn var upp í Icesave-málinu árið 2013 hlyti samþykki Evrópusambandsins.“

Stór hluti greinar Baudenbachers fer í að rekja dæmi úr norskum dómsmálum. Hann segir þarlenda dómara marga vera gamla kerfiskalla sem séu ósjaldan reiðubúnir að hlíta pólitískum merkjasendingum og dæma ríkinu í hag. Baudenbacher segir EFTA-dómstólinn hafa tekið óhóflega vinsamlega afstöðu gagnvart norska ríkinu á kostnað borgara og fyrirtækja síðan Páll Hreinsson varð forseti dómstólsins.

Efast um sjálfstæði Páls

Baudenbacher leggur út af verkefni sem Páll vann fyrir íslenska forsætisráðuneytið í fyrra. Þá vann Páll sérfræðiálit um hvaða heimildir sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra hafi til að grípa til opinberra sóttvarnaráðstafana. Álitið var unnið vegna covid-faraldursins.

Þetta verkefni forseta EFTA-dómstólsins vekur furðu forverans. Baudenbacher segir þetta vera málamyndaskjal sem gefi ríkisstjórninni nánast frjálsar hendur. „Hafi Páll Hreinsson nokkurn tímann verið sjálfstæður hefur hann með þessu glatað sjálfstæði sínu,“ segir Baudenbacher og telur hægt að véfengja gildi hvers þess dóms sem Páll á aðkomu að.