Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hæglætisveður um helgina og áfram hlýtt í veðri

31.07.2021 - 07:33
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Tómasson - RÚV
Veðurspá helgarinnar er með besta móti um land allt að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Ísland. Skýjað verður að mestu sunnan og vestan til og stöku skúrir, en víða bjartviðri fyrir norðan og austan.

Líkur eru á þokulofti við sjávarsíðuna að næturlagi. Áfram verður hlýtt í veðri og fer hiti yfir 20 stig á Vestfjörðum í dag og víða inn til landsins í dag og á morgun.

Hins vegar er spáð þéttari skýjahulu á mánudag, frídag verslunarmanna, og þá verður ekki jafnhlýtt og dagana á undan.  Veðurstofan gerir ráð fyrir hæglætisveðri áfram í vikunni.

Óvenjulegt eldingaveður gekk yfir Suðurland í gær með mikilli og skyndilegri úrkomu. Alls komu milli áttatíu og níutíu eldingar fram á eldingamælum Veðurstofunnar að því er Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur greinir frá á Facebook síðu sinni.

Hæg breytileg átt er við eldstöðvarnar og því gæti gæti borist í ýmsar áttir og mælst víða á Reykjanesskaga.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV