Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gleðinni ekki aflýst þrátt fyrir samkomutakmarkanir

31.07.2021 - 18:37
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Landsmenn hafa víða náð að skemmta sér ærlega þrátt fyrir samkomutakmarkanir. Hart var barist á mýrarboltamóti Í Árneshreppi og sólin bakaði fjallahlaupara á Akureyri.

Veiran fékk ekki að spilla Verslunarmannahelginni í Árneshreppi á Ströndum, þar sem smáhátíðin Nábrókin fer fram um helgina. Fimm lið mættu galvösk til keppni í mýrarbolta. Hvert lið skartaði sinni múnderingu og sum gerðu sveitinni hærra undir höfði en önnur.

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Mýrarboltakeppni.

Keppnisskapið var allsráðandi og fólk á öllum aldri tók á honum stóra sínum. Fyrsti leikurinn byrjaði með spyrnu á markið og fyrr en varði voru allir útataðir í drullu, annað hvort eftir að hafa dottið eða eftir að mótherjar höfðu hrint þeim ofan í svaðið. „Sjáiði þessa baráttu þetta er svo skemmtilegt, afhverju er þetta ekki alltaf svona,“ hrópaði leiklýsandinn upprifinn yfir átökunum.

Mynd með færslu
 Mynd: ruv

Í kvöld verður líklega aðeins rólegri stemmning hjá Strandamönnum, þá stýrir Ragnar Torfason brekkusöng. Balli sem átti að fara fram í félagsheimilinu var aflýst vegna samkomutakmarkana.

Svitnuðu í fjallahlaupi á Akureyri

Á Akureyri keyrði fjöldi hlaupara upp púlsinn í Súlur Vertical fjallahlaupinu. Í boði voru þrjár hlaupaleiðir, sú strembnasta 55 kílómetrar með 3000 metra hækkun. Hlaupararnir sem lengst fóru lögðu af stað frá Hömrum klukkan sjö í morgun og seinna um morguninn hlupu þau sem völdu 28 kílómetra fjallahlaup og 18 kílómetra utanvegahlaup af stað. 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Súlur Vertical hlaupið ræst klukkan sjö í morgun.

Áhorfendur héldu hlaupurum vel við efnið á leiðinni og klöppuðu þeim lof í lófa við marklínuna í miðbæ Akureyrar. Sólin skein og ekki annað að sjá en að fólk nyti sín í veðurblíðunni.