Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Viðbúnaður í Vestmannaeyjum og víðar um land

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum á von á því að stórir hópar brottfluttra Eyjamanna flykkist heim um helgina auk gesta. Þó að Þjóðhátíð hafi formlega verið aflýst komi fjölskyldur og vinahópar saman og haldi í hefðina. Aukinn viðbúnaður verður hjá lögreglu um helgina og þrefalt fleiri á vakt en alla jafna. Flestar hátíðir hafa verið blásnar af og víða býst lögregla við rólegri verslunarmannahelgi, viðbúnaður hefur þó verið aukinn á sumum stöðum og bætt í umferðareftirlit.

„Menn halda í Þjóðhátíð eins og þeir geta“

Yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum á von á því að stórir hópar brottfluttra Eyjamanna flykkist heim um helgina auk gesta. Þó að Þjóðhátíð hafi formlega verið aflýst komi fjölskyldur og vinahópar saman og haldi í hefðina. Aukinn viðbúnaður verður hjá lögreglu um helgina og þrefalt fleiri á vakt en alla jafna. „Það er náttúrulega rík hefð fyrir þessari hátið og eðlilega munu menn halda í hana eins og þeir geta, menn munu setja og hafa sett upp þjóðhátíðartjöld í görðum hjá sér og munu hittast þar við setningu í dag með kaffisamsæti, svo verður einhver gleði í kvöld í tjöldum og görðum, og á öðrum stöðum, þetta verður svona meira fjölskyldustemmning,“ segir Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn. Hann á von á að straumurinn liggi svolítið til Eyja um helgina. En hvað koma margir? „Við vitum það nokkurn veginn, það verða örugglega helmingi færri en við áttum von á en það verður þónokkur fjöldi hér enda veður gott og spáin fín.“

Engum hleypt í Herjólfsdal

Brekkusöngurinn, eini formlegi viðburðurinn sem ekki hefur verið aflýst, fer fram á sunnudagskvöld með breyttu sniði, en honum verður streymt gegn gjaldi. Herjólfsdalur verður lokaður og því verður fólk að fylgjast með úr sófanum heima. 

Jóhannes segir viðbúnað lögreglu verða aukinn verulega til að tryggja að allt fari vel fram. „Við bætum við okkar hefðbundnu vakt, við þreföldum hana, svona til öryggis.“

Óljóst hvernig helgin verður á Austurlandi

Davíð Auðbergsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi, segist renna óvenjublint inn í helgina, það sé óljóst hvaða áhrif veiran komi til með að hafa á hegðun fólks. Neistaflug á Neskaupsstað og aðrar hátíðir hafa verið blásnar af og Davíð segir að fækkað hafi á tjaldsvæðum eftir að hitabylgjunni lauk. Lögreglan er þó viðbúin hverju sem er og hefur bætt í umferðareftirlit. 

Þyrlan í eftirliti 

Á Suðurlandi hefur veðrið verið ágætt þó sólin verði ekki áberandi um helgina, umferð hefur verið mikil og þar voru tjaldsvæði mörg full í gær, eða að fyllast. Það er mikill viðbúnaður hjá lögreglu, eins og um verslunarmannahelgar almennt, Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, sagði í samtali við fréttastofu í gær að hálendið yrði vaktað sérstaklega vel, enda margt um manninn þar, þá tæki þyrla Landhelgisgæslunnar þátt í umferðareftirliti, að minnsta kosti tvo daga. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - rúv
Oddur Árnason.

Töluverð umferð fyrir vestan

Um vestfirska vegi hefur verið mikil traffík undanfarið, í báðar áttir að sögn Ingvars Jakobssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Nokkuð er um ferðafólk á svæðinu og búist við að sólin láti sjá sig á morgun en það eru engar hátíðir á dagskrá. Ingvar býst því allt eins við því að helgin verði eins og aðrar helgar og ekkert sérstakt álag á lögreglu. 

Engar áhyggjur af Norðanpaunki

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi Vestra, hefur ekki miklar áhyggjur af einu hátíðinni sem skipulögð er á svæðinu, Norðanpaunki, ættarmóti paunkara á Laugarbakka. Hún hafi alla tíð verið lítil, friðsamleg og ekki kallað á afskipti lögreglu. Umferðareftirlit verður aukið, eins og almennt um verslunarmannahelgi. Stefán segir að umferðin um hringveginn hafi verið gríðarleg undanfarið, en hún verði líklega minni nú um helgina en undanfarnar verslunarmannahelgar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurlandi
Eftirlit með umferð verður víða aukið.

Búist við rólegheitum

Á Norðurlandi eystra býst lögregla við rólegheitum en er með aukinn viðbúnað til vonar og vara. Fjöldatakmarkanir eru í gildi á tjaldsvæðum og ekki búist við neinni holskeflu af fólki þó einhver verði líklega straumurinn norður. 

Á Suðurnesjum þótti ekki ástæða til að bæta í mönnun hjá lögreglu, enda engar hátíðir, hvorki í ár né undanfarin ár. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV