Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Veiddi sex punda maríulaxinn í sólinni

30.07.2021 - 17:38
Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Karl Hermannsson
Rúmlega 300 laxar voru komnir á land úr Elliðaánum í gær. Laxinn er feitur og fallegur og lítið er af smálaxi í ánni. Aðeins er leyft að veiða á flugu og öllum laxi er sleppt.

Það er fallegt um að litast við Elliðaárnar í blíðunni þessa dagana. Laxinn lúrir undir vatnsborðinu á meðan veiðimennirnir reyna að freista hans með nýrri og nýrri flugu. Feðgarnir Ingvar Karl Hermannsson og sonur hans 
Styrmir Blöndal voru við veiðar í gær og skiptust á um að reyna að vekja laxinn sem blundaði vært í hylnum og fúlsaði við agni veiðimannanna.

Veiði í Elliðaánum hófst 20. júní og eru sex stangir leyfðar á dag. Annað árið í röð er eingöngu veitt á flugu en áður beittu menn maðki. Sól og hiti eru ekki kjöraðstæður laxveiðimanna. 

„Það er frábært að vera úti en ekki gott að veiða í þessu veðri og erfitt að fá hann til að taka í þessari sól. Vatnið er svo heitt að fiskurinn liggur hreyfingarlaus en hann er að stökkva hér um allt,“ sagði Ingvar Karl.

 
Ingvar Karl veiddi maríulaxinn sjö ára og hann var að kenna syni sínum kúnstirnar í veiðimennskunni.  „Það er nú ekki flókið að kenna honum og hann er fljótur að ná þessu en það vantar bara þolinmæðina.“ Ekki löngu síðar var strákurinn búinn að svara föður sínum því hann setti í fallegan 6 punda lax, fallegan og feitan maríulax.

Ingvar Karl er búinn að fá fimm laxa í sumar og hann þvælist um allt til að veiða. „Ég gæti veitt 90 daga í röð ef ég hefði efni á því. Það er kúnst að veiða hérna í Elliðaánum og gaman að skjótast hingað með guttann og leyfa honum að prófa. Hann verður náttúrulega vitlaus þegar hann sér laxana stökkva hérna um allt,“ sagði Ingvar Karl laxveiðimaður. 

 

Arnar Björnsson