Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þjóðhátíð í garðinum heima 

Mynd með færslu
 Mynd: Heiða Þorleifsdóttir - RÚV
Sem kunnugt er verður Þjóðhátíð ekki haldin í Vestmannaeyjum nú um Verslunarmannahelgina, mörgum Eyjapeyjum og -meyjum til sárrar mæðu. En ef fólk kemst ekki á Þjóðhátið þá kemur Þjóðhátíð bara til þeirra. Að minnsta kosti lítur Eyjamaðurinn Magnús Júlíusson svo á, en hann býr í Reykjavík.

Magnús heldur einfaldlega þjóðhátíð í garðinum heima með miklum myndarbrag, en hann er búsettur á fasta landinu, eða Norðureynni, eins og Eyjamenn kalla Ísland jafnan í góðu gamni. 

Ástæðan fyrir þjóðhátíðinni í garðinum heima hjá Magnúsi er ástandið í samfélaginu vegna Covid-19, eins og gefur að skilja. Hann segir hátíðina sína óhjákvæmilega vera talsvert smærri í sniðum en hin eiginlega þjóðhátíð, en býst engu að síður við dásamlegri stemningu enda uppalið Eyjafólk að koma saman.  

„Út af þessum faraldri þá ákváðum við bara að snúa dæminu við. Við vorum búin að gera okkur klár í dalinn en þegar þjóðhátíð var frestað þá ákváðum við að snúa bökum saman, snúa vörn í sókn og halda þetta bara hérna heima.“ 

Dagskráin hjá Magnúsi og fjölskyldunni hófst um klukkan þrjú síðdegis í dag á því sem þau kalla Létt lög í dalnum. Klukkan fimm verður hátíðin svo sett, gestir boðnir velkomnir og hátíðarræða flutt meðan gestum er boðið upp á kaffi, límonaði og þjóðhátíðarbakkelsi. Gestir munu svo sitja fram eftir kvöldi og ylja sér á kjötsúpu. Þá verður brennan á sínum stað, þó vitaskuld þurfi að sníða hana að aðstæðum inni í borginni. 

„Við ætlum bara að spjalla, spila Eyjalögin og ylja okkur við smá brennu eða varðeld sem við erum búin að setja hérna upp. Þessi brenna er kannski ekki jafnstór og þessi á Fjósakletti en hvað um það, okkur finnst gott að hafa smá varðeld til að minna okkur á Eyjarnar og tengja okkur við þær. “ 

Hvort af frekari þjóðhátíðarhöldum verður um helgina segir Magnús það óráðið enn. Hvíta þjóðhátíðartjaldið, sem Magnús hafði með sér úr eyjum og upp á land og búið er að merkja hefðum samkvæmt, fær hins vegar að standa áfram í garðinum og fram yfir helgi svo hann útilokar ekkert í þeim efnum.