Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stálu bíl og reyndu að nappa bifhjóli

30.07.2021 - 06:55
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Tveir ungir menn stálu bíl í nótt og reyndu einnig að taka bifhjól ófrjálsri hendi. Eigandi hjólsins náði að stöðva mennina áður en það tókst. Mennirnir tveir voru handteknir og færðir í fangageymslu.

Þá var lögreglu tilkynnt um þjófnað úr verslun í miðbæ Reykjavíkur. Tveir starfsmenn verslunarinnar höfðu hendur í hári þjófsins og náðu þýfinu til baka. Þá sló þjófurinn annan starfsmanninn í andlitið og komst undan.

Nokkuð var um umferðarlagabrot, nokkrir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Um hálftíuleytið í gærkvöldi var bifreið stöðvuð í Breiðholti þar sem tveir farþegar á unglingsaldri stóðu í aftursæti hennar og upp úr topplúgu bifreiðarinnar. Foreldrum þeirra var gert viðvart og tilkynning send til barnaverndarnefndar. 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV