Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sló heimsmetið í 200 m bringusundi

epa09373998 Tatjana Schoenmaker of South Africa reacts after heat 4 of the Women's 200m breaststroke of the Swimming events of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Tokyo Aquatics Centre in Tokyo, Japan, 28 July 2021.  EPA-EFE/VALDRIN XHEMAJ
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Sló heimsmetið í 200 m bringusundi

30.07.2021 - 02:04
Tatjana Schoenmaker frá Suður-Afríku sló heimsmetið í 200 m bringusundi kvenna um leið og hún tryggði sér gullverðlauninni í greininni á Ólympíuleikunum í Tókýó. Schoenmaker synti á 2:18,95 mín.

Fyrra heimsmet átti Daninn Rikke Möller Pedersen, 2:19,11 mín. sett árið 2013. Schoenmaker bætti því heimsmetið um 16/100 úr sekúndu. Hún vann 200 m bringusundið með nokkrum yfirburðum í dag, því hún var næstum heilli sekúndu á undan næstu konu í bakkann.

Bandaríkin unnu silfur og brons. Lilly King vann silfrið og Annie Lazor bronsið. Þetta eru önnur verðlaun Schoenmaker á Ólympíuleikum, því hún vann silfrið í 100 m bringusundinu. Þetta eru hins vegar hennar fyrstu gullverðlaun.

Tvenn Ólympíumet

Ástralinn Emma McKeon vann 100 m skriðsundið á nýju Ólympíumeti, 51,96 sek. Þetta eru önnur gullverðlaun hennar á leikunum, því hún vann einnig 4x100 m boðsundið með sveit Ástralíu. Þær settu um leið heimsmet í þeirri grein fyrr á leikunum. McKeon hefur einnig unnið tvenn bronsverðlaun hér í Tókýó, þannig að samtals eru verðlaunin hennar orðin fern.

Rússinn Evgeny Rylov varð svo Ólympíumeistari í 200 m baksundi. Hann synti líka á nýju Ólympíumeti, 1:53,27 mín. Kínverinn Wang Shun varð svo Ólympíumeistari í 200 m fjórsundi á nýju Asíumeti, 1:55,00 mín.