Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Öruggt hjá Valskonum gegn Fylki

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Öruggt hjá Valskonum gegn Fylki

30.07.2021 - 19:12
Valur og Fylkir mættust í 12. umferð Pepsi Max deildar kvenna í kvöld. Valur tryggði stöðu sína á toppi deildarinnar með góðum sigri 5-1 en Fylkiskonur sitja á botninum. Leiknum hafði verið frestað vegna covid-smits í leikmannahópi Fylkis.

Fyrir leikinn voru Valskonur með 29 stig í efsta sæti deildarinnar. Fylkir var hins vegar á botni deildarinnar en liðið hefur aðeins unnið tvo leiki í sumar. Það voru þó Fylkiskonur sem komust nokkuð óvænt yfir strax á 5. mínútu með marki frá Bryndísi Örnu Níelsdóttur sem náði frákasti eftir að Sandra Sigurðardóttir varði frá henni í fyrstu tilraun. 

Valskonur voru þó ekki lengi undir og eftir aðeins 12 mínútur í viðbót var staðan orðin 3-1. Mist Edvardsdóttir skoraði tvö skallamörk eftir hornspyrnur með tveggja mínútna millibili og Cyera Makenzie Hintzen gerði svo nokkurn veginn út um leikinn með marki á 17. mínútu, staðan 3-1 í hálfleik. Seinni hálfleikur var rólegur framan af en Ásdís Karen Halldórsdóttir skoraði fjórða mark Vals á 77. mínútu og Elín Metta Jensen afgreiddi svo leikinn endanlega í uppbótatíma, lokatölur 5-1. 

Valur er þar með kominn með fjögurra stiga forskot á Breiðablik sem situr í öðru sæti deildarinnar. Fylkiskonur eru enn í 10. sæti á botni deildarinnar, þó með jafn mörg stig og Keflavík sem situr í 9. sæti.