Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óhapp við tengingu við geimstöðina olli nokkru uppnámi

epa09377101 A still image taken from a handout video footage made available by the Russian State Space Corporation ROSCOSMOS shows the Nauka Multipurpose Laboratory Module docking to the International Space Station (ISS), 29 July 2021. The Nauka Multipurpose Laboratory Module was launched from the Baikonur Cosmodrome in Kazakhstan on 21 July 2021.  EPA-EFE/ROSCOSMOS HANDOUT MANDATORY CREDIT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - ROSCOSMOS
Rússum tókst að tengja Nauka rannsóknarferjuna við alþjóðlegu geimstöðina í dag. Áhöfn geimstöðvarinnar þurfti að bregðast skjótt við þegar óvænt kviknaði á brennurum ferjunnar eftir teninguna.

Vísindamönnum á jörðu niðri og áhöfn geimstöðvarinnar brá mjög í brún þegar ferjan fór óvænt í gang nokkru eftir tenginguna með þeim afleiðingum að geimstöðin sjálf færðist til um 45 gráður.

Til að vega á móti þurftu geimfararnar í geimstöðinni að kveikja á brennurum hennar og koma henni aftur á réttan stað. Allri hættu var afstýrt en samkvæmt upplýsingum frá NASA var SpaceX skutla sem tengd er við geimstöðina gerð ferðbúin þyrfti áhöfnin að forða sér.

Ákveðið var að fresta ómannaðri ferð Boeing Starliner geimhylkis til geimstöðvarinnar um nokkra daga meðan atvikið er rannsakað. 

Nauka var skotið á loft í síðustu viku en ætlunin er að hún nýtist við margvíslegar rannsóknir í geimstöðinni.  Sömuleiðis bætir ferjan við geymslurými stöðvarinnar og bætir aðstöðu rússneskra geimfara sem þar dveljast. 

Miklar tafir hafa orðið á að koma Nauka að geimstöðinni. Hún var hönnuð á tíunda áratugnum og átti að endurlífga geimáætlun Rússa en fjárskortur og skriffinnska gekk nánast að henni dauðri. 

Upphaflega stóð til að senda Nauka út í geim árið 2007 en það tafðist af margvíslegum orsökum.

Þrátt fyrir að geimskotið hafi heppnast prýðilega komu upp nokkur vandræði fyrstu þrjá sólarhringa eftir það. Því viðurkennir Dmitry Rogozin, forstjóri rússnesku geimvísindastofnunarinnar, að hann hafi andað léttar þegar loksins tókst að tengja Nauka við geimstöðina.