Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Herinn sinnir eftirliti með sóttvarnabrotum

30.07.2021 - 19:45
Mynd: RUV / RUV
Útgöngubann hefur verið framlengt um heilan mánuð í Sydney í Ástralíu vegna útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar. Íslensk kona sem býr í borginni segir að íbúum lítist ekki vel á þau áform að herinn sinni eftirliti með sóttvarnabrotum.

Útgöngubann í áströlsku borginni Sydney hefur verið framlengt um heilan mánuð vegna útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar þar í borg. Á annað hundrað kórónuveirusmita hafa greinst daglega í Nýju-Suður-Wales, þar sem Sydney er höfuðborgin.

Áströlsk stjórnvöld hafa frá upphafi faraldursins gripið til harðra samkomutakmarkana og lokunar landamæra. Hins vegar þykir mörgum landsmönnum bólusetningar ganga hægt, en aðeins um 16% fullorðinna Ástrala teljast fullbólusett. Þetta segir íslensk kona sem búsett er í Sydney. 

„Já, það er alveg svolítil reiði hjá fólki út í það að stjórnvöld hafi ekki pantað meira bóluefni. Við erum bara með Pfeizer og Astra og þetta gengur bara voða hægt fyrir sig þannig að fólk er svolítið frústrerað yfir því. Við erum sem sagt búin að vera í þessu útgöngubanni í fimm vikur núna og þurfum að vera fjórar vikur í viðbót þannig að þetta verða líklegast og vonandi bara níu vikur. En við megum fara út og hreyfa okkur tvö saman eða til að versla það sem við þurfum en þurfum að hafa grímu og viðhalda eins og hálfs metra reglunni,“ segir Hrefna Björg Gylfadóttir, sem býr í Sidney. 

En fregnir bárust í dag af því að hundruð hermanna myndu frá og með mánudegi sinna eftirliti með mögulegum brotum á útgöngubanninu þar. Við spurðum Hrefnu einnig hvernig þau áform legðust í íbúa borgarinnar. 

Af því sem ég hef heyrt alls ekki vel. Planið er að senda herinn út í hverfi sem kallast hot spot, það eru hverfi þar sem meira af covidi er að blossa upp en í öðrum hverfum. Fólk er svolítið reitt yfir því að það sé verið að senda herinn inn á þessi svæði í stað þess að spyrja af hverju covid er að blossa upp á þessum svæðum. Þetta eru kannski svæði þar sem fólk þarf að vinna fyrir sér og þarf þess vegna að brjóta þessar reglur og takmörk. Og fólk veltir fyrir sér hvort ekki sé hægt að grípa til annarra aðgerða til að styðja við þetta fólk í stað þess að senda vopnaða einstaklinga til að passa upp á heilsu fólks,“ segir Hrefna Björg.

„Ég held að áströlsk stjórnvöld haldi mjög mikið í ímynd þess að vera yfirvald, og þetta gætu verið viðbrögð við mótmælunum seinustu helgi. Það voru sem sagt mótmæli gegn takmörkunum og grímuskyldu. En ég held líka til að vera alveg hreinskilin að herinn hafi bara ekki mjög mikið að gera núna. Þegar ég kom til Ástralíu og þurfti að vera í tvær vikur á hóteli þá var það einmitt herinn sem var að passa að við færum ekki út úr herbergjunum. Ég held að þetta sé kannski líka atvinnumöguleiki fyrir herinn.“

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV