Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gögn sýna meiri alvarleg veikindi hjá viðkvæmum hópum

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Staðgengill sóttvarnarlæknis segir ný gögn sýna fram aukna tíðni alvarlegra veikinda og dauðsfalla hjá bólusettum, viðkvæmum hópum. Tíðnin eykst með hækkandi aldri. Hún undirstrikar þó að smit þýði ekki sjálfkrafa alvarleg veikindi, sérstaklega ekki hjá þeim sem eru bólusettir.  

Smit ekki það sama og veikindi

Staðan á Landspítalanum var í morgun óbreytt frá því í gær, 10 liggja inni vegna covid, þar af tveir á gjörgæslu. Um 500 manns fóru í sóttkví í gær og er heildarfjöldinn að nálgast 3.000. Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnarlæknis, segir að þó 120 til 130 séu að greinast á degi hverjum, þýði það ekki endilega að stórt hlutfall veikist alvarlega. 

Smit er eitt og veikindi er annað. Við erum að sjá alvarleg veikindi og við erum að sjá innlagnir. Og með miklu fleiri smitum en við erum vön, þá þýðir það að þó að færri verði alvarlega veikir vegna bólusetninganna, þá er það samt sem áður mikill fjöldi ef smitin verða miklu fleiri. Ef áfram heldur sem horfir. Og það er kannski það sem er mesta áhyggjuefnið. 

Mestar áhyggjur af viðkvæmum hópum

Kamilla undirstrikar að enn sé erfitt að segja hvernig delta-afbrigðið fer í fólk, en hún hefur mestar áhyggjur af elsta aldurshópnum, þó að bólusetningaþátttakan hjá þeim hafi verið sérlega góð. 

Þá höfum við samt sem áður áhyggjur af því að vörnin gegn þessu afbrigði sé ekki eins góð og gegn öðrum afbrigðum. Fyrir utan að einstaklingar á þessum aldri eru sennilega síður varðir með fullri bólusetningu heldur en þeir sem yngri eru. Það eru komin fram gögn um að ef það komast smit í bólusetta, mjög viðkvæma hópa eins og aldraða, þá er áfram aukin tíðni á alvarlegum veikindum og dauðsföllum, eftir hækkandi aldri. Þó að það sé skárra eftir bólusetningu.