Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjórtán daga nýgengi gæti náð nýjum hæðum um helgina

30.07.2021 - 17:03
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Fjórtán daga nýgengi smita hérlendis verður orðið það mesta frá upphafi faraldursins áður en helgin er úti ef álíka mörg smit greinast á morgun og hinn og verið hefur síðustu daga. Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna.

„Við sjáum það bara núna að fjórtán daga nýgengi sem við erum alltaf að horfa á, sem sýnir okkur hvernig faraldrinum vindur fram, stefnir mjög hratt í að vera mesta fjórtán daga nýgengi sem við höfum haft í faraldrinum, í þessum bylgjum hingað til,“ sagði Víðir í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. „Við erum bara rétt undir því í dag og ef við fáum aftur hundrað smit á morgun og hinn daginn erum við komin með mesta nýgengi sem við höfum nokkurn tímann haft í faraldrinum. Á bak við þessa tölfræði eru einstaklingar sem veikjast.“

Víðir sagði mikilvægt að hafa í huga að smit og veikindi séu ekki tölfræði heldur fólk. Hann segist hafa mikla trú á að fólk gæti sín um helgina þrátt fyrir að margir séu á faraldsfæti um verslunarmannahelgi.

Víðir og Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill landlæknis, segja að vegna þess hversu mörg smitin eru þá geti margir orðið alvarlega veikir og jafnvel þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Það geti gerst jafnvel þótt hlutfallslega fáir þeirra sem smitast verði alvarlega veikir.

Kamilla segir að missir bragð- og lyktarskins hafi verið sérstakasta einkennið sem fólk tengi við covid. „Það er á sínum stað en það eru alls ekki allir sem fá það. Þannig að það er mjög mikilvægt að hafa áfram í huga hin einkennin: hósta, kvef, hálsbólgu, vöðvaverki, höfuðverk. Niðurgangur er mögulega meira áberandi við delta en önnur afbrigði. Allt þetta er full ástæða til að taka alvarlega og koma sér í sýnatöku.“ Þar við bætist til dæmis þreyta og slappleiki, hnerrar og særindi eða bólgutilfinning í hálsinum. Kamilla segir að fólk eigi að vera með lágan þröskuld fyrir því að fara í sýnatöku ef það finnur fyrir einkennum. Fólk þurfi ekki að vera með mörg einkenni þótt svo það greinist með covid.