Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ég er ekkert að fara heim að gráta mig í svefn“

Mynd: María Björk Guðmundsdóttir / RUV

„Ég er ekkert að fara heim að gráta mig í svefn“

30.07.2021 - 07:30
„Þetta er náttúrulega bara svekkjandi. Ég bara negldi á það, en því miður gekk það bara ekki í dag. Ég á þetta klárlega inni, ég get kastað hrikalega langt og er í góðu formi. En því miður var þetta bara ekki minn dagur,“ sagði kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason við RÚV eftir að hafa lokið keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó. Öll þrjú köst hans voru ógild.

Fyrsta kast Guðna endaði í netinu við kasthringinn. Hann segir það þó ekki hafa haft nein áhrif á sig. „Nei alls ekki. Það var negla. Ég bara missti gripið á kringlunni og hún fór í netið. Það gerist sjaldan, en gerðist núna. Það skiptir eiginlega engu máli. Maður þarf bara eitt gott kast þannig maður þarf bara að negla henni. Það skiptir ekki máli hvort það séu 60 metrar eða ógilt. Hvorugt dugar í úrslit. Maður þarf bara að negla 63 eða 64 metra að minnsta kosti til að komast áfram. Það er það eina sem maður hugsar um. En þetta gekk bara ekki í dag. Það kemur bara síðar,“ sagði Guðni.

Annað kast Guðna lenti svo utan geira og var því líka ógilt. Þriðja kastið var síðan oft stutt til að fleyta honum inn í úrslitin. Guðni Valur ákvað að gera það sjálfur ógilt þegar hann sá lengdina á því. En eru til einhverjar einfaldar skýringar hvers vegna fyrstu tvö köstin fóru eins og þau fóru? „Nei, í rauninni ekki. Þetta er náttúrulega bara tækniíþrótt. Það þarf svo rosalega lítið til að bæta við sig þremur metrum eða missa þrjá metra. Þannig þegar ég skoða myndbönd af þessu þá lítur þetta kannski nánast eins út og þegar ég kasta 65-66 metra. Þannig þetta er bara tækni íþrótt. Þetta er erfitt. Maður hefur bara þrjár tilraunir og þær duguðu ekki til í dag. Þetta kemur bara næst. Það er gaman að vera hérna,“ sagði Guðni nokkuð brattur.

Leiðinlegt að geta ekki sýnt hve góðu formi hann er í

Steikjandi hiti og mikill raki er í Tókýó. Hafði það áhrif á Guðna í dag? „Það skiptir eiginlega engu máli. Maður er nú orðinn nokkuð vanur svona aðstæðum. Ég er búinn að vera miklu meira erlendis en á Íslandi í sumar. Mér hefur gengið mjög vel í sumar, nema bara núna seinni part sumars. Ég er í hrikalega góðu formi og bara leiðinlegt að geta ekki sýnt það hér,“ sagði Guðni Valur við RÚV.

En gengur hann svekktur af velli eða hnarreistur? „Ég er náttúrulega smá svekktur, en það er eiginlega ekkert hægt að dvelja lengi við það. Ég reyndi mitt besta og ég get eiginlega ekkert gert betur en það. Ég er ekkert að fara heim að gráta mig í svefn. Ég fer bara að hugsa hvað ég get gert betur. Það er stórt sumar á næsta ári, bæði EM og HM og það verður bara ógeðslega skemmtilegt.“

Svo er styttra í næstu Ólympíuleika en væri undir eðlilegum kringumstæðum. Því næstu leikar verða eftir þrjú ár, sumarið 2024 í París. „Já, það er grunsamlega stutt í næstu Ólympíuleika. Þannig þetta verður bara gaman. Vonandi verður maður heill þangað til og ekkert vesen. Það yrði frábært,“ sagði kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason eftir að hafa lokið þátttöku sinni á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Tengdar fréttir

Ólympíuleikar

Guðni Valur úr leik í kringlukastkeppninni