Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aukin bjartsýni í Hrísey

30.07.2021 - 14:13
Mynd: Ólafur Gros / RÚV
Aukin bjartsýni ríkir nú meðal íbúa Hríseyjar og hefur börnum á skólaaldri fjölgað um næstum helming. Að einhverju leyti hefur möguleikinn á fjarvinnu haft áhrif á fjölgunina að sögn íbúa.

Fagna fjölgun

Í Hrísey búa rúmlega 160 manns en mun fleiri bætast við á sumrin. Fyrir rúmu ári voru mjög fá börn á leik- og grunnskólaaldri og um tíma var ekkert barn í leikskólanum. Það er nú að breytast og er orðið erfitt fyrir fjölskyldur að fá húsnæði.

Ingólfur Sigfússon, formaður hverfisráðs Hríseyjar segir að ungu fólki hafi fjölgað í Hrísey síðustu ár. „Við fögnum því mjög mikið að það sé búið að fjölga bæði ungu fólki og börnum í eyjunni. Það hefur mikið að segja þegar það fjölgar í skólanum,“ segir Ingólfur.

Mikil fjölgun í skólunum

Þar sem barnafjölskyldur hafa flutt til eyjunnar breytir það miklu fyrir skólalífið. Ráða þarf fleira starfsfólk sem skapar aukin atvinnutækifæri.

„Síðasta vetur byrjuðu 15 börn og var í raun enginn á leikskóladeildinni. Síðan fluttu hingað tvær fjölskyldur og þá var kominn grundvöllur að opna leikskólann aftur. Börnin fóru úr því að vera 15 í leik- og grunnskóla upp í 24,“ segir Ingólfur.

Ýmis tækifæri

Þrátt fyrir að engin stór fyrirtæki séu í Hrísey er þar fjölbreytt atvinnustarfsemi og ýmiss konar frumkvöðlastarf. Til dæmis eru þar landnámshænur og eggin seld til veitingahúsa og verslana. Einnig er í Hrísey stórtæk tínsla og þurrkun á hvannarblöðum sem eru notuð í fæðubótarefni. 

Júlía Mist Almarsdóttir, iðjuþjálfi í Hrísey segir mikla bjartsýni ríkja í eynni og uppbygging sé mikil. „Það eru framkvæmdir í nærri öllum húsum og já, ég myndi segja að það væri bara mikil bjartsýni.“ 

Heimurinn fer minnkandi

Júlía er alin upp í Hrísey en eftir að hafa búið í landi um nokkurt skeið er hún nú flutt aftur í eyna með fjölskyldu sinni. Hún segir ræturnar hafa sagt til sín en það hafi einnig verið aðrar ástæður fyrir flutningnum.

„Ákvörðunin var líka tekin út frá því að maðurinn minn ætlaði að fara í nám. Hér er ódýrara húsnæði en á Akureyri þar sem við bjuggum áður. Heimurinn er alltaf að minnka með aukinni tölvuvæðingu, þannig að það er auðveldara að stunda nám hvar sem er í heiminum,“ segir Júlía. 

Í Hrísey er aðstaða fyrir fólk sem vinnur fjarvinnu en auk þess er undirbúningur hafinn á að leggja þangað ljósleiðara. Við það aukast möguleikar á fjarvinnu enn frekar.

Hanna Eyrún Antonsdóttir, safnvörður í Hrísey, segist finna fyrir auknum áhuga ungs fólks að búa sér heimili í eynni. „Bæði unga fólkið er að sjá að það getur unnið héðan og náttúrlega ættartengingin hefur líka áhrif. Ef það getur stundað vinnu hér eða héðan er það bara mjög jákvætt,“ segir Hanna.