Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Útgöngubann framlengt í Katalóníu

29.07.2021 - 16:21
epa09356461 Several people leave Hospital de Mar under several huge banners picturing paramedics in Barcelona, Spain, 21 July 2021. Hospital del Mar in one of the six city hospitals that take part in the initiative 'Behind the Mask' in which hospital cover its facades with huge photos of paramedics to pay a tribute to them and their work during the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/Quique Garcia
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Útgöngubann að nóttu til var framlengt öðru sinni í Katalóníu í dag. Því var komið á um miðjan júlí til að draga úr örri fjölgun kórónuveirusmita í héraðinu. 

Dómstóll í Barselóna féllst á beiðni heimastjórnarinnar um að framlengja útgöngubannið. Það er í gildi í 163 bæjum og borgum í Katalóníu og sömuleiðis á vinsælum sumardvalarstöðum á borð við Sitges og Salou.

Þetta er í annað skiptið sem dómstóllinn heimilar að útgöngubannið sé framlengt. Tíðni kórónuveirusmita er hvergi hærri á Spáni um þessar mundir en í Katalóníu. COVID-19 sjúklingar eru í 45 prósentum rúma á sjúkrahúsum héraðsins. Á landsvísu er hlutfallið sautján prósent.

Nokkur önnur héruð hafa gripið til aðgerða til að takmarka skemmtanahald um kvöld og nætur til að draga úr útbreiðslu hins bráðsmitandi delta-afbrigðis kórónuveirunnar, svo sem Andalúsía og Baleareyjar. 

Samkvæmt tölum sem heilbrigðisyfirvöld birtu í gær voru sjö hundruð smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðastliðna fjórtán daga á Spáni, það er um það bil fimm sinnum fleiri en fyrir mánuði. Í Katalóníu voru þau yfir þúsund á hverja hundrað þúsund.

Pedro Sanchez forsætisráðherra sagði í dag þegar hann ræddi vandamálið að svo virtist sem jafnvægi væri að nást í fjölda smita. Þá hefði bólusetningarátak skilað árangri. Sextíu og sex prósent Spánverja hafa þegar fengið að minnsta kosti annan bóluefnisskammtinn. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV