Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tveir á gjörgæslu með covid-smit

29.07.2021 - 11:10
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Síðan í gær hafa þrír verið lagðir inn á sjúkrahús með COVID-19. Alls liggja núna tíu manns inni á sjúkrahúsi og þar af eru tveir á gjörgæslu. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna og Landlæknis. Bólusetning dregur mikið úr veikindum samkvæmt rannsóknum og staðan væri mun alvarlegri án þeirra.

Þau sem smitast af delta-afbrigðinu gætu frekar þurft að leggjast inn á spítala. Um fimm prósent þeirra sem smituðust af fyrri afbrigðum þurftu á sjúkrahúsinnlögn að halda. Samkvæmt tölum frá Bretlandseyjum virðast vísbendingar vera um að hlutfallið sé hærra þegar kemur að delta afbrigðinu. Smitsjúkdómadeildin er nú eingöngu fyrir COVID-19. Þar eru 17 einangrunarrými. 

Alma Möller, landlæknir, hvetur þá sem hafa fengið covid til að þiggja bólusetningu og sýna varkárni. Einnig minnir hún á mikilvægi þess að setja upp rakningarappið í snjallsímum. Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, segir að mögulega verði hægt að gefa sértæk bóluefni gegn delta-afbrigðinu sem virka jafn vel og bóluefni hafa gert gegn fyrri afbrigðum.

Eins og er þá er ekki tímabært að segja til um hvort takmarkanir verði felldar niður þrettánda ágúst. Að lokum hvetur Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, fólk til varkárni um helgina. „Verið góð hvert við annað og njótið helgarinnar.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV