Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir stjórnvöld bera ábyrgð á morði Galizia

29.07.2021 - 21:49
epa08027560 Demonstrators protest outside Malta's House of Parliament in Valletta, Malta, 26 November 2019 following the resignations of Minister Konrad Mizzi and Prime Minister Joseph Muscat's Head of Staff Keith Schembri and  Minister Chris Cardona suspending himself from any activities of his party (Partit Laburista) as Malta police investigations into the murder of late journalist Daphne Caruana Galizia in 2017 continue.  EPA-EFE/DOMENIC AQUILINA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Morðið á maltneskri blaðakonu  árið 2017 er á ábyrgð stjórnvalda þar. Þetta er niðurstaða nýrrar opinberrar rannsóknar. Þó að stjórnvöld hefðu ekki haft beina aðkomu að því, hefðu þau getað komið í veg fyrir það.

Daphne Caruana Galizia var myrt þegar sprengja sprakk í bíl hennar í október 2017. Hún hafði í starfi sínu sem blaðamaður afhjúpa mikla spillingu í stjórnkerfi landsins. Forsætisráðherrann Joseph Muscat var býsna oft viðfangsefni Galiziu og fjölskylda hennar hafði grun um að stjórnvöld hefðu átt þátt í morðinu. Muscat sagði af sér vegna málsins í janúar í fyrra að undangenginni mikilli mótmælaöldu.

Þrír dómarar hafa undanfarin tvö ár séð um opinbera rannsókn á morðinu sem var gerð að kröfu fjölskyldu Galiziu. Rannsóknin hefur ekki verið birt en maltneskir fjölmiðlar greina frá því í dag að stjórnvöld séu ábyrg fyrir dauða hennar. Þó þau hafi ekki haft beina aðkomu að verknaðinum hafi þau skellt skollaeyrum við vísbendingum um að lífi Galiziu væri ógnað.

Þá hafi nefndin sterkar sannanir fyrir því að þeir sem frömdu morðið hafi talið sig vita að þeir fengju vernd á æðstu stöðum - bæði innan lögreglunnar og stjórnkerfisins.

Búið er að dæma einn mann í 15 ára fangelsi fyrir morðið. Tveir aðrir eru taldir hafa aðstoðað við verknaðinn og einn til viðbótar skipulagt það með þeim. Ekki hefur enn verið réttað yfir þeim þremur.

Joseph Muscat gagnrýndi rannsóknina í yfirlýsingu á Facebook en sagðist þó sætta sig við niðurstöðu hennar.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV