Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rúmir fjórir milljarðar í bætur vegna Sandy Hook

29.07.2021 - 10:11
epa03988018 (FILE) A file picture dated 21 December 2012 shows a woman kneeling in front of a fence with the names of the 20 children killed a week ago at a memorial at the Sandy Hook Elementary School in Newtown, Connecticut, USA. A Newtown city official
 Mynd: EPA
Bandaríski byssuframleiðandinn Remington hefur boðist til að greiða fjölskyldum fórnarlamba skotárásarinnar í barnaskólanum Sandy Hook bætur. Þær nema alls 33 milljónum bandaríkjadala, jafnvirði 4.150 milljóna íslenskra króna.

Árásin var gerð árið 2012 í Sandy Hook barnaskólanum í Newton í Connecticut. Tuttugu börn, sex og sjö ára, voru skotin til bana en auk þeirra voru sex kennarar myrtir af tvítugum árásarmanni. Árásin er ein sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna. 

Fjölskyldur níu fórnarlamba höfðuðu mál gegn Remington árið 2014, en skotvopn framleitt af fyrirtækinu voru notuð í árásinni. Þær héldu því fram að hríðskotarifflur af þessu tagi ættu ekki að vera seldir almennum borgurum. Samkvæmt samkomulaginu fengi hver fjölskylda fyrir sig 3,6 milljónir bandaríkjadala en þær kröfðust mun hærri bóta, samtals 225 milljóna dala. Remington óskaði eftir gjaldþrotaskiptum árið 2018 en dómsmálið hefur velkst um í kerfinu lengi. Hæstiréttur hafnaði áfrýjunarbeiðni Remington árið 2019 en fyrirtækið telur sig varið fyrir lögsóknum með lögum frá árinu 2005, en þau kveða á um að byssuframleiðendur séu ekki ábyrgir fyrir því hvernig vopnin séu notuð. Greint er frá þessu á vef BBC. Í sáttatilboði Remington fellst að greiddar verði alls 33 milljónir dala í bætur, en fjölskyldurnar hafa ekki tekið afstöðu til tilboðsins en það þarf líklega samþykki dómara í málinu.