Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Öflugur jarðskjálfti í Alaska

29.07.2021 - 08:55
Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Jarðskjálfti 8,2 að stærð reið yfir Alaska þegar klukkan var stundarfjórðung gengin í sjö í morgun. Upptökin voru 90 kílómetrum suður-austur af bænum Perryvile. Varað er við því að flóðbylgjur geti skollið á Alaskaströndum á næstu klukkutímum. Á Hawaii var fólk beðið um að halda sig frá ströndinni. Á samfélagsmiðlum hafa birst myndir af fólki keyra frá ströndum Kodiaks, sex þúsund manna bæjar sem er á samnefndri eyju, þeirri stærstu í Alaska.

Fimm eftirskjáltar mældust og var sá stærsti þeirra 6,2 að stærð og annar 5,6.  Í mars 1964 varð stærsti jarðskjálfti sem mælst hefur í Norður Ameríku, hann var 9,2 að stærð. Þá létust rúmlega 250 manns í skjálftanum og í flóðbylgjunni sem fylgdi í kjölfarið. Jarðskjálftamælar Veðurstofu Íslands námu bylgjur frá skjálftanum og skjálftar skráðir á korti Veðurstofunnar sem samkvæmt upplýsingum þaðan áttu ekki upptök hér við land. Viðvörunarbjöllur ómuðu í Kodiak og fleiri borgum og bæjum við strendur Alaska í morgun. 

Arnar Björnsson