Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Metaregn í lauginni í Tókýó

epa09375349 Winner Yufei Zhang (L) of China and her teammate Liyan Yu react on their way out after competing in the womens 200m Butterfly Final during the Swimming events of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Tokyo Aquatics Centre in Tokyo, Japan, 29 July 2021.  EPA-EFE/Patrick B. Kraemer
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Metaregn í lauginni í Tókýó

29.07.2021 - 04:02
Eitt heimsmet og þrjú Ólympíumet féllu í úrslitum sundkeppninnar á Ólympíuleikunum í nótt. 4x200 metra boðsund kvenna var æsispennandi og sögulegt.

 

Kína sigraði í ótrúlega spennandi 4x200 metra boðsundi kvenna. Þrjár efstu sveitirnar voru allar undir gildandi heimsmeti eftir háspennu endasprett.

Flestir bjuggust við sigri Ástralíu fyrirfram en kinverska liðið hafði forystuna frá upphafi og þær áströlsku náðu ekki að halda í við þær. Bandaríska liðið lét lítið fyrir sér fara þar til á síðustu 200. Þá synti Katie Ledecky fyrir þær og át upp forskot Kína og Ástralíu. Hún rétt missti af efst sætinu og Li Bingjie kom fyrst í bakkann fyrir Kína á nýju heimsmeti: 7:40,33. Bandaríkin fengu silfur á 7:40,73 og Ástralía brons á 7:41,29. Fyrra heimsmet var 7:41,50 og það átti ástralska sveitin frá 2019.

 

Bandaríkjamaðurinn Caeleb Dressel sigraði í æsispennandi keppni í 100 metra skriðsundi karla á nýju Ólympíumeti, 47,02 sekúndum. Hann var 6 hundruðustu á undan Ástralanum Kyle Chalmers. Kliment Kolesnikov, rússnesku Ólympíunefndinni, varð svo þriðji.

Þetta er fjórða gullið hjá Dressel á Ólympíuleikum, annað núna í ár. Hin þrjú voru hins vegar öll í boðsundi.

 

Zhang Yufei frá Kína vann 200 metra flugsund kvenna með miklum yfirburðum. Hún stakk af á fyrstu 50 metrunum og hélt öruggu forskoti til loka og kom í mark á 2:03,86 sem er nýtt Ólympíumet. Þetta var þriðji sigur Kínverja í greininni eftir 2008 og 2012.

Zhang synti líka í boðsundinu með kínversku sveitinni og setti því eitt Ólympíumet og eitt heimsmet í nótt.

Regan Smith frá Bandaríkjunum varð önnur og Hali Flickinger, sömuleiðis frá Bandaríkjunum, varð þriðja. Þetta er í annað sinn sem Bandaríkin fá tvenn verðlaun í greininni frá 1972, þegar þjóðin vann gull, silfur og brons.

 

Ástralinn Izaav Stubblety-Cook sigraði í 200 metra bringusundi karla á nýju Ólympíumeti, 2:06,38 mínútur. Hann var langt á undan Hollendingnum Arno Kamminga, eða 63 hundruðustu. Þriðji varð Matti Mattsson frá Finnlandi. Sigurtími Stubblety-Cook er þriðji besti tími sögunnar í greinninni og tími Mattson er Norðurlandamet.

Þetta eru fyrstu gullverðlaun Ástrala í þessari grein frá leikunum 1964, sem voru einmitt í Tókýó.

Þetta eru önnur silfurverðlaun Kamminga á leikunum, en hann varð annar í 100 metra bringusundi líka. Þet

ta voru hins vegar 300. verðlaun Hollands á Ólympíuleikum, hvort sem er vetrar eða sumar.

Mattsson vann fyrstu verðlaun Finna á leikunum. Finnar unnu ein verðlaun í Ríó 2016. Þá eru þetta fyrstu verðlaun Finna í sundi á leikunum frá 1996.

Eina úrslitagreinin þar sem ekki féll heims- eða Ólympíumet var 800 metra skriðsund karla. Bandaríkjamaðurinn Robert Finke tryggði sér sigur með gríðarlegum endaspretti. Hann var í 3.-5. sæti lengst af sundinu og í 3. sæti þegar síðustu 50 metrarnir hófust. Þá setti hann á mikinn sprett og kom fyrstur í bakkann. Annar varð Ítalinn Gregorio Paltrinieri, 24 hundruðustu á eftir, og þriðji Úkraínumaðurinn Mykhailo Romanchuk, 46 hundruðustu á eftir, en hann setti Ólympíumet í undanrásunum.