Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fréttir: Hvetur konur til að halda sínu striki

29.07.2021 - 12:18
Lögreglan handtók konu fyrir öskur og óspektir þegar byrjað var að bólusetja þungaðar konur á Suðurlandsbrautinni í morgun. Hún æpti að eitri væri sprautað í konurnar.

Staðgengill sóttvarnalæknis hvetur barnshafandi konur til að halda sínu striki.  Yfirmaður covid-göngudeildar segir veikindi þeirra sem liggja óbólusettir á spítala önnur en bólusettra.

118 ný kórónuveirusmit greindust í gær og voru 67 utan sóttkvíar. Áttatíu voru fullbólusettir og fjórir hálfbólusettir. Síðan í gær hafa þrír verið lagðir inn á spítala og eru tveir á gjörgæslu.

Ísland er appelsínugult á nýju korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Eftir viku verður Ísland rautt.

Bágborið ástand heilbrigðiskerfisins í Mjanmar gæti orðið til þess að kórónuveiran dreifist þaðan með ógnarhraða. Þetta er mat erindreka Sameinuðu þjóðanna í Mjanmar.

Flóðbylgjuviðvörun var gefin út í Alaska eftir að jarðskjálfti af stærðinni 8,2 reið yfir snemma í morgun að íslenskum tíma. Hún var afturkölluð þremur klukkustundum síðar.

Dómstóll í Tókíó staðfesti í gær fangelsisdóma í máli bandarískra feðga sem aðstoðuðu fyrrverandi forstjóra bílaframleiðandans Nissan við að flýja land í desember 2019.

Heimsleikarnir í CrossFit hófust í gær í Madisonborg í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum. Sex íslenskir keppendur eru á leikunum. 
 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV