Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bólusetningarvottorð með AstraZeneca víðast samþykkt

29.07.2021 - 20:09
Mynd: EPA / EPA
Um 28 prósent heimsbyggðarinnar hafa nú fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni við kórónuveirunni og 14,2 prósent eru fullbólusett, langflestir í ríkari löndum heims. Eftir því sem bólusetningum vindur fram leggja fleiri land undir fót - og þá þarf víðast hvar að framvísa bólusetningarvottorði á landamærunum.

Talsverður munur er á hversu mörg lönd taka ákveðin bólusetningarvottorð gild. Flest taka bólusetningarvottorð með bóluefni AstraZeneca gilt, eða um 120 ríki. Tæplega níutíu ríki efni Pfizer, rúmlega 60 rússneska bóluefnið Sputnik, og rúmlega 50 ríki taka gild vottorð með bólusetningu með efnum frá Sinopharm, Moderna og Janssen. Fæst taka gild bóluefni kínverska fyrirtækisins CanSino Biologics.

„Þetta er að breytast hratt, eins og allt er að gerast mjög hratt í þessum faraldri. Ríki eru að breyta þessu en þessi mismunur skýrist af því hvaða lyf hafa markaðsleyfi í viðkomandi landi,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.

Er ekkert hægt að lesa í það að einhver efni séu ekki komin með markaðsleyfi í ákveðnum ríkjum?
„Nei, það er ekkert hægt að lesa í það. Það er bara sótt um markaðsleyfi. Þú þarft líka að hafa framleiðslugetuna og dreifingargetuna til þess að dreifa í þessum löndum og það kannski helgast einna helst af því,“ segir Rúna.

Nokkur munur er því á hve víða bólusettir Íslendingar geta ferðast eftir því hvort þeir fengu AstraZeneca, Pfizer, Moderna eða Janssen, en Lyfjastofnun Evrópu hefur samþykkt öll fjögur efnin. Þá taka ákveðin lönd ekki á móti ferðafólki - sama hvaða bóluefni það fékk.

„Ég held að framtíðin verði þannig að þú ert bara bólusettur við COVID eins og öðrum sjúkdómum, og þar sem er óskað eftir að þú komir með bólusetningarvottorð er ekkert verið sérstaklega að horfa til framleiðenda heldur er þetta bara bóluefni sem þú ert bólusettur með í þínu landi og bólusetningin er gild,“ segir Rúna.

Þannig að þeir sem voru bólusettir með Janssen þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur?
„Ég held að þeir þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur varðandi bólusetningarvottorð, nei,“ segir hún.

Rúna segir miklu máli skipta að koma bóluefnum til efnaminni ríkja, en þar hefur AstraZeneca verið ráðandi. „Það skiptir mjög miklu máli og þá kemur ýmislegt inn líka. Þess vegna er verið að horfa á AstraZeneca bóluefnið, meðal annars því það þarf að vera auðvelt í flutningu, auðvelt í geymslu og verðmiðinn þarf að vera réttur,“ segir hún.