Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ákveðin hugarró að það sé mælt með þessu”

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Ríflega 400 barnshafandi konur mættu í bólusetningu á Suðurlandsbraut í dag. Kona var handtekin þar í morgun vegna háværra mótmæla og óspekta. Hjúkrunarfræðingur sem þurfti að kljást við konuna segir dagana svo pakkaða að hún sé hætt að kippa sér upp við nokkurn skapaðan hlut.

Bólusetningin hófst klukkan níu í morgun við Suðurlandsbraut og stóð fram eftir degi. Konunum var skipt niður eftir fæðingarmánuði, þær sem eru fæddar í janúar og febrúar komu fyrstar. 

Ég kaus að taka þá ákvörðun að fara ekki í bólusetningu fram að þessu. Því mér fannst pínu óþægilegt að þurfa að taka þessa ákvörðun sjálf. En ég treysti því að stjórnvöld hafi skoðað þetta mál vel og að þetta sé vel ígrunduð ákvörðun hjá þeim. Það er ákveðin hugarró að það sé mælt með þessu og að maður geti drifið þetta af. Mér hefur ekki liðið vel undanfarnar vikur og það er bara mjög gott að geta fengið bólusetningu loksins.
- Helga Beck

Ég var búin að ákveða að fara alls ekki. En svo út af þessum fréttum þá breyttist það. Það er svona eins og það sé bara tímaspursmál hvenær fólk fær covid. Mér finnst óþægilegt sem er búið að vera í fréttum að þetta getur haft hormónabreytingar á konur. Hvort þær séu á túr eða ekki, það þurfti ég að hugsa sérstaklega um. 
- Soffía Theódóra Tryggvadóttir

Um 900 konur eru í facebookhópnum Tíðahringur bólusettra kvenna gegn C19 þar sem þær deila reynslusögum um möguleg áhrif bóluefna á blæðingar. Lyfjastofnun hafa borist hátt í 300 tilkynningar þess efnis. Sóttvarnayfirvöld undirstrika að málið sé í rannsókn.

Handtekin eftir hávær en fámenn mótmæli

Um klukkan tíu varð uppi fótur og fit við Suðurlandsbraut þegar fámenn, en mjög hávær, mótmæli hófust. Önnur tveggja kvenna byrjaði að öskra og láta öllum illum látum. Hún sagði meðal annars að bóluefnið væri eitur og kallaði stjórnvöld morðingja. 

„Það komu tvær konur, sem voru með annað sjónarmið en við erum að tala fyrir hér. Og höfðu áhyggjur af þessum bólusetningum. En þetta er ekki staðurinn til að vera að mótmæla ákvörðunum sóttvarnayfirvalda. Þannig að við þurftum að kalla til lögregluna til að hjálpa okkur að leysa þetta mál,” segir Margrét Héðinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri bólusetninga. „Lögreglan var hjá okkur fram eftir degi.” 

Það er náttúrulega allt mögulegt búið að gerast í þessu. Bæði hérna og í Keflavík og maður tekur bara því sem höndum ber. En ég vil bara segja alveg eins og er að dagarnir eru bara þannig að ég hef ekki tíma til að hafa áhyggjur af einhverju.