Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Útgöngubann framlengt í Sydney en opnað í öðrum borgum

epa09368531 NSW Premier Gladys Berejiklian speaks to media during a press conference in Sydney, New South Wales, Australia, 27 July 2021.  EPA-EFE/JOEL CARRETT  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Lokanir og útgöngubann vara í mánuð til viðbótar í Sydney, fjölmennustu borg Ástralíu. Ekkert verður af fyrirhuguðum afléttingum í lok vikunnar eins og til stóð.

Mikil útbreiðsla Delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur orðið til þess að íbúum borgarinnar hefur verið gert að halda sig meira og minna heima frá því undir lok júnímánaðar. Breska ríkisútvarpið fjallar um málið á vef sínum.

Um síðustu helgi var útgöngubann framlengt um viku og til stóð að aflétta því á föstudag. Gladys Berejiklian, ríkisstjóri Nýja Suður-Wales segir það útilokað í ljósi stöðunnar. 

Frá því að þessi nýja bylgja smita skall á borginni, sú versta á árinu, hafa yfir 2.500 smitast og í dag var tilkynnt um 177 ný smit í ríkinu. Það er mesti fjöldi á einum degi frá því í mars 2020.

Lífið gekk nokkuð sinn vanagang í Sydney þar til smitum tók að fjölga þar í júní. Útgöngubann er ekki lengur í gildi í Viktoríu-ríki og Suður-Ástralíu eftir að heilbrigðisyfirvöldum tókst að hefta útbreiðslu smita.

Nú vara sérfræðingar hins vegar við því að íbúar Sydney geti búist við hörðum takmörkunum fram í september eða jafnvel lengur. 

Frá því að faraldurinn skall á hefur Áströlum tekist að halda aftur af útbreiðslu veirunnar með því að loka landamærunum og skipa ferðalöngum í sóttkví á hótelum.

Jafnframt hafa stjórnvöld gripið alloft til þess að fyrirskipa skyndilegt og umfangsmikið útgöngubann um leið og smitum tekur að fjölga.

Óánægju er þó tekið að gæta en hörð mótmæli gegn sóttvarnaráðstöðfunum brutust út í Sydney, Melbourne og öðrum borgum Ástralíu um liðna helgi.