Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Snæfríður með persónulegt met en komst ekki áfram

Mynd með færslu
 Mynd: SSÍ

Snæfríður með persónulegt met en komst ekki áfram

28.07.2021 - 10:22
Íslenska sundfólkið lauk keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag. Snæfríður Sól Jórunnardóttir bætti persónulegt met sitt í 100 m skriðsundi í undanrásum á leikunum í dag. Tíminn dugði henni þó ekki áfram í undanúrslit.

Snæfríður synti í þriðja riðli af sjö og var á sjöundu braut. Hennar besti tími í 100 m skriðsundi fyrir daginn í dag var 56,32 sek. Hún var síðust í riðlinum eftir 50 metra með millitímann 27,17 sek. Hún synti seinni 50 metrana svo af miklum krafti og vann sig upp í 4. sætið í riðlinum. Tími Snæfríðar var 56,15 sek. 

Hún bætti því sinn besta tíma í greininni um 17/100 úr sekúndu. Íslandsmetið í greininni á Ragnheiður Ragnarsdóttir, 55,66 sek. sett árið 2009. Þrátt fyrir framfarir Snæfríðar í þessari aukagrein sinni dugði tímann ekki til að komast í undanúrslit. Hún endaði í 34. sæti af 52 keppendum og hefði þurft að synda á 53,70 sek. til að vera meðal 16 bestu og komast áfram.

Ólympíumet hjá McKeon

Áður hafði Snæfríður sett Íslandsmet í sinni aðalgrein á leikunum í Tókýó, í 200 m skriðsundi, en komst þó ekki heldur áfram í undanúrslit í þeirri grein þrátt fyrir glæsilegt Íslandsmet þar. Þetta eru fyrstu Ólympíuleikar Snæfríðar Sólar.

Ástralinn Emma McKeon setti Ólympíumet í undanrásunum þegar hún synti á 52,13 sek. í sjötta riðli. Hún bætti þar með Ólympíumetið sem Sarah Sjöström frá Svíþjóð setti í 4x100 m skriðsundinu þegar Sjöström synti sína 100 m á 52,62 sek.