Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Smitsjúkdómadeild breytt í covid-deild

28.07.2021 - 21:01
Í morgun var tekin ákvörðun um að rýma smitsjúkdómadeild Landspítala og breyta henni í covid-deild. Áður hefur verið gripið til þess ráðs í fyrri bylgjum faraldursins. Sigríður Gunnarsdóttir, starfandi forstjóri Landspítala, segir það vera snúið úrlausnarefni fyrir spítalann að finna næg legurými fyrir þá sem þurfa að leggjast inn á spítalann.

Átta covid-smitaðir eru nú á sjúkrahúsi, flestir með undirliggjandi sjúkdóma. Einn er á gjörgæslu, sá er óbólusettur. Fimm voru lagðir inn í gær en í dag hafa hvorki verið innlagnir né útskriftir meðal sjúklinga með COVID-19.  

Hafa þurft að aflýsa aðgerðum 

Starfsemi spítalans hefur þá raskast nokkuð og hefur þurft að aflýsa nokkrum aðgerðum til þess að létta undir með gjörgæsludeild. Skipulögð starfsemi er þó í lágmarki fyrir vegna sumarleyfa. 

„Við höfum aflýst aðgerðum núna fyrir helgi til að draga úr álagi á gjörgæsludeildum af því að við vitum að við erum að fara inn í verslunarmannahelgina sem er mikil slysahelgi. En við höfum lítið þurft að draga úr því nú er hásumarleyfistíminn og starfsemi því í lágmarki. Við getum lítið minnkað starfsemina eins og hún er núna, “ segir Sigríður. 

Smit í átta starfsdeildum og tveimur stoðdeildum

Smit hafa komið upp meðal starfsmanna í, að minnsta kosti, átta klíniskum starfsdeildum og tveimur stoðdeildum. Sautján starfsmenn eru nú í einangrun og því hafa margir samstarfsmenn þeirra og jafnvel sjúklingar þurft að fara í sóttkví.  Sigríður segir eina helstu áskorun þessarar bylgju vera hve dreift smitið sé og því óhjákvæmilegt að smit komi upp meðal starfsmanna líkt og víðar.