Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Maður á hraðferð fór í gegnum rúðu á kvikmyndahúsi

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Í gærkvöldi var tilkynnt um slys í kvikmyndahúsi í Vesturbæ Reykjavíkur. Bíógestur áttaði sig á að honum hefði láðst að læsa bílnum sínum. Þegar hann ætlaði að hlaupa út úr húsinu og læsa bílnum, áður en myndin byrjaði, vildi ekki betur til en svo að hann fór í gegnum rúðu á kvikmyndahúsinu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þá féll kona af hestbaki í Hafnarfirði. Hesturinn féll ofan á konuna í kjölfarið og var hún flutt á bráðadeild til aðhlynningar. 

Lögreglan stöðvaði tvær bifreiðar í Breiðholti í gærkvöldi og ökumenn þeirra voru kærðir fyrir misnotkun skráningarmerkja þar sem bæði ökutækin voru með sama skráningarnúmer. Þá reyndist annar ökumaðurinn vera réttindalaus og ökuréttindi hans fallin úr gildi. 

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV