Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Loksins rigning

28.07.2021 - 10:10
Mynd með færslu
 Mynd: northiceland.is - RÚV
Eftir um mánaðar þurrka- og hlýindatíð er farið að rigna á Norður- og Austurlandi. Umsjónarmaður Lystigarðsins á Akureyri segir að nauðsynlegt hafi verið að vökva á hverjum degi frá lokum júní og er himinsæl að geta nú tekið frí frá vökvuninni.

 

Rigningin er góð

Guðrún Kristín Björgvinsdóttir, umsjónarmaður Lystigarðsins, hefur unnið í garðinum í 16 ár og aldrei upplifað annan eins  þurrk og hlýindi og hafa verið á Akureyri í sumar. Í dag og næstu daga falla loks dropar úr lofti.

Það er óhætt að segja að Guðrúnu og starfsmönnum hennar í Lystigarðinum finnist rigningin góð. „Okkur finnst hún æðisleg, frábær! Gátum ekki verið heppnari í dag,“ segir Guðrún.

Mikið þurft að vökva

Það hefur verið mikill þurrkur undanfarinn mánuð en Guðrún segir að garðyrkjan hafi þrátt fyrir allt gengið ágætlega. „Við höfum verið rosalega dugleg að vökva þannig að það er lítið um þurrkað gras þannig að garðurinn lítur bara mjög vel út,“ segir Guðrún.

Guðrún segir að starfsfólkið hafi þurft að vökva daglega, bæði flatirnar og blómabeðin. Með mikilli vökvun og hlýjum sumardögum hafi nokkrar plöntur blómstrað allt að mánuði fyrr en vant er.

Guðrún segir að það þyrfti þó að rigna töluvert meira til að bleyta almennilega í jarðveginum. Veðurspáin sýnir að rigning geti verið næstu daga. Það eru góðar fréttir fyrir starfsemina í Lystigarðinum. „Það eru bara frábærar fréttir, bara vonandi rignir sem mest í þessa daga,“ segir Guðrún.