Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hefði viljað skima út ágústmánuð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði, segir að bólusetja verði fleiri áður en öllum hömlum verður sleppt. Hún segir æskilegt að bólusetja 12-15 ára unglinga áður en skólarnir byrja.

 

Ingileif lýsti því yfir fyrir tæpum sex vikum að hún vildi að halda áfram að skima bólusett fólk sem kæmi til landsins, m.a. vegna þess að delta-afbrigði veirunnar var þá í hröðum vexti. Síðar kom í ljós að afbrigðið var miklu meira smitandi en þau sem áður höfðu greinst. Hún segir að það hefði því átt að skima lengur á meðan enn var verið að bólusetja fólk og það ekki komið með fulla vernd fyrr en eftir 4-8 vikur.

Þess vegna vildi Ingileif að skimað yrði út ágústmánuð. „Við vissum að þegar hætt yrði að skima á landamærunum myndu smit sleppa inn í landið.  Við vissum ekki að delta-afbrigðið væri þetta smitandi og að smitin yrðu þetta mörg en það er mjög auðvelt að vera vitur eftir á.“

Hún segir að mikil krafa hafi verið um að opna landið og einhvern tíma þyrfti að gera það. Því miður hafi delta-afbrigðið bæði reynst vera meira smitandi en hægt var að sjá fyrir. Það valdi líka alvarlegum sjúkdómi og sýki yngra fólk. Hún segir góðu fréttirnar vera þær að öll bóluefnin sem hér hafa verið notuð verndi vel gegn alvarlegum sjúkdómum, sjúkrahúsinnlögn og dauða.

Stórar rannsóknir sýna að verndin Pfizer-bóluefnisins sé  88-95% og AstraZeneca hafi veitt 70-90% í tveimur mismunandi rannsóknum. Niðurstöður sýni að Jansen veitti heldur minna mótefni gegn delta-afbrigðinu. Eftir átta mánuði sé vörn Jansen bóluefnisins lítið minni en gegn upprunalegu afbrigðum veirunnar. Það bendi til þess að það bóluefni verndi vel gegn alvarlegum sjúkdómi.
 
Ingileif segir öll bóluefnin góð og að staðan væri miklu verri í dag ef ekki væri búið að bólusetja svona stóran hluta þjóðarinnar. Það hafi komið mörgum á óvart að verndin gegn því að smitast sé miklu minni. Fyrir upprunalegu afbrigðin hafi bóluefnin dregið úr einkennum smita um 60-80% en tölur frá Ísrael sýni að vörn gegn delta-afbrigðinu sé bara 41%. Hver sem smitast getur sýkt aðra. Ingileif segir að fáir af þeim sem sýkjast veikist illa. Tölur frá Bretlandi sýni að margir þeirra sem veikjast af delta-afbrigðinu séu fullbólusettir, yfir 20 prósent, og um 60 prósent þeirra sem liggja á sjúkrahúsum í Ísrael séu með delta-afbrigðið. Flestir sem liggja á sjúkrahúsum í þessum löndum eru yfir sextugu og með undirliggjandi sjúkdóma.

Stóra málið núna sé hvort þessar aðgerðir duga til að koma í veg fyrir að þeir sem hafa svarað þessum bóluefnum síst, eins og eldra fólk og lasið, veikist alvarlega. Það komi í ljós á nokkrum vikum en á meðan þurfi að halda áfram að tryggja að leki ekki meira í gegnum landamærin.

Ingileif segir að PCR-próf komi ekki í staðinn fyrir skimun en þau komi þó að gagni. PCR-prófin og skyndiprófin komi til með að ná mörgum. Áður en núgildandi takmarkanir tóku gildi hefðu þeir sem greindust smitaðir á landamærunum verið  einkennalausir. Þegar þeir náðu sér í vottorð til að komast heim hafi þeir þeir orðnir jákvæðir.

„Skimun er alltaf betri og mikilvægt og nauðsynlegt að raðgreina alla þá sem greinast jákvæðir. Þannig vitum við hvaða afbrigði veirunnar er að herja á okkur.  Við töpuðum nokkrum vikum eftir að þessar aðgerðir voru ákveðnar, að krefjast þess að fólk væri með neikvætt próf fyrir veirunni. Það leið samt rúm vika þangað til að þetta kom til framkvæmda.“ Ingileif segir að skimanir séu bæði erfiðar í framkvæmd og dýrar. Með fleiri ferðamönnum hafi reynt á þolmörkin hjá veirufræðideildinni. Ekki hafi verið talið að delta-afbrigðið væri eins alvarlegt og það hefur reynst vera. Einhvern tíma hefði orðið að hætta að skima en þetta hafi ekki verið hægt að sjá fyrir og því ekki hægt að tala um mistök. Þetta hafi farið verr en til stóð.

Ingileif segir að nýju samkomutakmarkanirnar séu skynsamlegar. „Við höfum verið heppin með að stjórnvöld hafa fylgt ráðum sóttvarnalæknis sem hefur byggt sínar tillögur á bestu þekkingu á hverjum tíma. Ég held að það séu fá lönd sem hafa stjórnvöld sem hlusta eins mikið á þá sem best þekkja til. Við erum í miklu betri stöðu en flest löndin í kringum okkur. Mjög fáir eru  veikir þó að margir séu smitaðir. En ef margir þurfa í sóttkví hefur það áhrif á starfsemi spítalans. Ef smitin verða mörg í haust hefur það áhrif á skólana. Þess vegna þurfum við að setja aukinn kraft í bólusetningu á þeim hópum sem hafa beðið.“

Þrátt fyrir að hátt hlutfall landsmanna hafi fengið bólusetningu er Ingileif ekki sammála þeim sem vilja draga úr takmörkunum. „Það eru ennþá stórir hópar óbólusettir, m.a. börn undir 16 ára aldri og ófrískar konur. Sem betur fer á að byrja að bólusetja þær í þessari viku. Svo má ekki gleyma þeim sem ekki geta þegið bóluefni vegna undirliggjandi sjúkdóma. Þetta eru hópar sem við þurfum að hugsa um á meðan veiran breiðist út.  Við þurfum að  bólusetja fleiri áður en við sleppum öllum hömlum.“ Ingileif vill að farið verði í að undirbúa bólusetningu unglinga með bóluefnum Pfizer og Moderna sem hafa fengið leyfi Lyfjastofnunar Evrópu. Rannsóknir hafa lofað góðu en sóttvarnayfirvöld hér hafa ekki enn ráðlagt almenna bólusetningu vegna þess að greinst hafa sjaldgæf tilfelli af hjartavöðvabólgu og gollurshúsbólgu sem koma aðallega fram í ungum karlmönnum. Þessi vandamál leysast oft af sjálfu sér en sumir verða mikið veikir.

Ingileif segir að á meðan lítið smit var í samfélaginu hafi verið í lagi að bíða. Nú sé ljóst að stjórnvöld séu að íhuga að taka upp bólusetningar unglinga þegar skólarnir byrja. Það væri æskilegra að gera það áður þannig að börnin væru komin með ónæmisvar sem verndar þau þegar þau mæta í skólann. „Þá er fólk að koma frá rauðum löndum. Æskilegt er að bólusetja 12-15 ára unglinga og ég tel að margir foreldrar myndu vilja fá bólusetningar fyrir sín börn. Það er verið að rannsaka bóluefni í börnum frá fimm ára aldri og eftir nokkra mánuði liggja þær fyrir en þangað til verða þau enn óbólusett. Þó að börn smitist síður og veikist minna og smiti aðra síður að þá veikist börn samt sem áður. Tvær nýlegar rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að yfir 30 prósent þeirra barna sem þar liggja inni þurfa á gjörgæslu að halda. Kannski eru þetta börn sem hafa undirliggjandi sjúkdóma".  Ingileif segir að góðu fréttirnar með þennan sjúkdóm miðað við innflúensu séu að börn smitist síður og veikist minna. Ingileif segir að við megum búast við nýjum afbrigðum af veirunni og einhver þeirra kunni að verða verri á meðan veiran dreifist óheft í stórum hluta heimsins. 
 

 

Arnar Björnsson