Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Blinken ræðir við indverska ráðamenn í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Utanríkisráðuneytið
Búist er við að indverskir stjórnmálamenn leggi áherslu á að ræða mögulega landvinninga Talíbana í Afganistan við Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og krefjast frekari stuðnings í deilum við Kínverja.

Á hinn bóginn má ætla að Blinken geri mannréttindi að umtalsefni í viðræðum sínum við Narendra Modi forsætisráðherra og Subrahmanyam Jaishankar utanríkisráðherra í dag.

Blinken er í sinni fyrstu opinberu heimsókn til Indlands. Samskipti ríkjanna hafa löngum verið með stirðara móti en einbeitt framganga Kínverja hefur orðið til að auka samstöðu þeirra.

Það gerðist einkum eftir átök milli Kínverja og Indverja á landamærum ríkjanna í Himalajafjöllum á síðasta ári.

Hernaðarsérfræðingurinn Brahma Chellaney bendir þó á í samtali við AFP-fréttaveituna að Biden-stjórnin ljái málstað Indverja ekki máls gegn Kínverjum með jafn afgerandi hætti og gert var í forsetatíð Donalds Trump.

Hann segir jafnframt að skyndilegt og óskipulagt brotthvarf Bandaríkjahers frá Afganistan hafi orðið til að ergja indverska ráðamenn. Þeir óttist að Talíbanar nái vopnum sínum með stuðningi Pakistana, höfuðóvinar Indverja, og geti herjað á Indland.

Indversk stjórnvöld hafa stutt afgönsku ríkisstjórnina með gríðarlegum fjárframlögum en kvöddu nýverið fimmtíu sendiráðsstarfsmenn heim frá Kandahar í ljósi breyttra aðstæðna.