Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Biles keppir ekki í fjölþrautinni

epa09364036 Simone Biles of the USA competes on the Balance Beam during the Women's Qualification of the Tokyo 2020 Olympic Games Artistic Gymnastics events at the Ariake Gymnastics Centre in Tokyo, Japan, 25 July 2021.  EPA-EFE/HOW HWEE YOUNG
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Biles keppir ekki í fjölþrautinni

28.07.2021 - 06:26
Bandaríska fimleikasambandið tilkynnti í morgun að Simone Biles muni ekki taka þátt í úrslitum fjölþrautar kvenna á Ólympíuleikunum á morgun. Hún sé ekki í ástandi til að keppa.

Biles vann fjölþrautartitilinn í Ríó fyrir fimm árum og hefði getað orðið fyrst kvenna til að verja titil sinn. Hún var efst í forkeppninni, þrátt fyrir að hafa í tvígang hlekkst á. Hún hætti hins vegar keppni í liðakeppninni í gær vegna andlegs álags. 

Hún sagðist hafa metið stöðuna í liðakeppninni þannig að betra væri að draga sig út, frekar en að taka sénsinn á að kosta liðið verðlaun.

„Ég varð að gera það sem er rétt fyrir mig og einbeita mér að andlegri heilsu minni. Ég hef ekki sama sjálfstraust og áður. Ég veit ekki hvort þetta er aldurinn en ég er taugaóstyrkari. Ég er heldur ekki að njóta þess að keppa eins og ég gerði áður. Ég hafði óskað þess að ég gæti keppt fyrir mig sjálfa á þessum Ólympíuleikum," sagði Biles á blaðamannafundi í gær.

Bandaríska fimleikasambandið segir í tilkynningu sinni að „eftir frekari skoðanir lækna hefur Simone Biles dregið sig úr keppni í fjölþraut til að einbeita sér að andlegri heilsu sinni.“

Ekki hefur verið útilokað að hún treysti sér til að keppa í úrslitum á stökum áhöldum síðar á leikunum, en hún vann sér inn keppnisrétt í úrslitum á öllum áhöldum.

 

„Við styðjum ákvörðun Simone af heilum hug og fögnum hugrekki hennar í að setja velferð sína í forgang. Hugrekki hennar sýnir enn á ný hvers vegna hún er fyrirmynd svo margra,“ segir í yfirlýsingu bandaríska fimleikasambandsins.

 

Tengdar fréttir

Ólympíuleikar

Biles: Ég hef ekki sama sjálfstraust og áður

Ólympíuleikar

Biles hætti keppni og Rússarnir unnu