Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Átök í Litáen vegna flóttamanna frá Hvítarússlandi

28.07.2021 - 22:22
Members of the Lithuanian Police Anti-terrorist Operations Unit ARAS arrive at the refugee camp in the village of Vydeniai, Lithuania, Saturday, July 10, 2021. European Union member Lithuania has declared a state of emergency due to an influx of migrants from neighboring Belarus in the last few days. Lithuania's interior minister said late Friday that the decision, proposed by the State Border Guard Service, was necessary not because of increased threats to the country of 2.8 million but to put a more robust system in place to handle migrants. (AP Photo/Mindaugas Kulbis)
 Mynd: AP
Spennan fer sívaxandi á landamærum Hvítarússlands og Litáen vegna aukins straums flóttamanna um landamæri. Íbúar hafa mótmælt fyrirhugaðri byggingu flóttamannabúða og hefur lögreglan þurft að beita táragasi. Þá hafa flóttamennirnir sjálfir einnig mótmælt.

Yfir 3.000 flóttamenn hafa verið handteknir fyrir að fara ólöglega þessa leið það sem af er ári, en þeir voru rúmlega 80 allt árið í fyrra. 

Á mánudag kom til átaka þegar íbúar bæjarins Rudninkai mótmæltu flóttamannabúðum sem verið er að reisa steinsnar frá bænum. Mótmælendurnir reyndu að loka veginum af búðunum, en lögreglan dreifði hópnum, meðal annars með táragasi.

„Förufólkið hefur ákveðið að ráðast inn í þennan litla bæ. Það verður meira af þeim en okkur íbúunum. Við eigum lítil börn, hver ætlar að ábyrgjast öryggi þeirra?“ segir einn íbúa Rudninkai.

Flóttamennirnir hafa líka verið ósáttir og skeyttu skapi sínu á lögreglumenn með því að henda í þá mat.

Agne Bilotaite innanríkisráðherra Litáen varði aðgerðir lögreglumannanna, en vill bregðast við ástandinu. „Innanríkisráðuneytið leggur til, í ljósi aðstæðna, að ástandið verið metið og mögulega verður lýst yfir neyðarástandi á svæðum næst landamærunum.“

Til þess þarf samþykki forsetans Gitanas Nauseda, en hann hefur hafnað því. Litáar hafa sakað stjórnvöld í Hvítarússlandi um að senda flóttamenn markvisst yfir landamærin. En óháð því, er þörf á lausn, að mati Virgilijusar Pranskevicius, héraðsstjóra Alytus, sem liggur að landamærunum. „Förufólkið vill frelsi, það vill fá að vita sem fyrst hvað verður um það. Sumir hafa þegar sagt að þeir vilji fara heim. Að sjálfsögðu viljum við fá úr þessu skorið eins fljótt og hægt er.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV