Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Það var svolítið erfitt að sofna“

Mynd: SSÍ / SSÍ

„Það var svolítið erfitt að sofna“

27.07.2021 - 08:56
Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sem setti glæsilegt Íslandsmet í undanrásum 200 metra skriðsunds á Ólympíuleikunum í gær, segir að allt hafi gengið upp í sundinu. Framundan er 100 metra skriðsund þar sem hún ætlar að bæta í reynslubankann.

Sund Snæfríðar Sólar í gær var frumraun hennar á Ólympíuleikum. Hún viðurkennir að hafa verið talsvert spennt.

„Það var svolítið erfitt að sofna. Ég var glöð og spennt og það var mjög gaman að komast í gang og það gekk vel,“ segir Snæfríður Sól.

„Ég er mjög sátt með þetta. Það gekk eiginlega allt eins og ég var búin að plana og við vorum búin að tala um, þannig að ég er mjög sátt með það.“

Framundan er síðari grein hennar á leikunum, sem er 100 metra skriðsund á morgun.

„Það er ekki aðalsundið mitt, ég hef verið að einbeita mér meira að 200 metrunum. Þar er það meira það að fá reynslu og njóta þess. Ég fer nokkuð pressulaus í það sund og reyni bara að fá eitthvað í reynslubankann að synda aftur,“ segir Snæfríður Sól.

Ólympíuleikar eru á allt öðrum stærðarkvarða en öll önnur mót. Fleiri greinar og keppendur og svo dvelja allir saman í Ólympíuþorpinu. Hvernig hefur Snæfríður Sól upplifað þetta?

„Þetta er bara mjög gaman. Auðvitað stórt að ég sé hérna á Ólympíuleikunum, en bara mjög gaman. Gaman að hitta alla og svona.“

Snæfríður Sól keppir í undanrásum 100 metra skriðsundsins á morgun. Útsending hefst á RÚV 2 klukkan 9:55 og er riðill hennar á dagskrá klukkan 10:07.