Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Smitum og dauðsföllum fjölgar hratt í Indónesíu

27.07.2021 - 15:49
epa09366057 A woman receives a dose of Sinovac vaccine during a COVID-19 mass vaccination for locals in Banda Aceh, Indonesia, 26 July 2021. Indonesia is speeding its vaccination program as the number of COVID-19 cases surpassed 3,000,000, with more than 80,000 deaths since the beginning of the pandemic.  EPA-EFE/HOTLI SIMANJUNTAK
Innan við sjö prósent indónesísku þjóðarinnar hafa verið bólusett að fullu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir tvö þúsund létust af völdum COVID-19 í Indónesíu síðastliðinn sólarhring. Ástandið hefur ekki verið verra frá því að heimsfaraldurinn braust út í fyrra. 

Dauðsföllin í landinu voru 2.069 og fjölgaði um tæplega sex hundruð frá sólarhringnum á undan. Þá voru greind rúmlega 45 þúsund smit í dag, en voru um það bil 28 þúsund í gær.

Þessi nýju tíðindi þykja einkar slæm, ekki síst í ljósi þess að í gær heimiluðu yfirvöld að litlar verslanir yrðu opnaðar að nýju ásamt útiveitingahúsum og nokkrum verslanamiðstöðvum. Einnig voru moskur opnaðar í héruðum þar sem lítið er um smit.

Heilbrigðisyfirvöld höfðu varað við að slakað yrði á smitvörnum, ekki síst vegna delta-afbrigðis veirunnar sem breiðist um Indónesíu um þessar mundir líkt og víða annars staðar í heiminum. Þjóðin er sú fjórða fjölmennasta í heimi. Sóttvarnir hafa til þessa verið minni en víða annars staðar. Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd af þeim sökum.  

Joko Widodo forseti heimilaði til dæmis að verslanir og veitingahús yrðu opnuð á ný þar sem smitum og innlögnum á sjúkrahús færi fækkandi í höfuðborginni Jakarta. Delta-afbrigðið hefur hins vegar herjað í tólf héruðum og á Jövu og Bali hefur smitum fjölgað hratt að undanförnu.

Bólusetningar gegn veirunni ganga mun hægar en stefnt hefur verið að. Innan við sjö prósent þjóðarinnar eru bólusett að fullu. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV